Kærunefnd jafnréttismála telur að Ástráður Haraldsson sé hæfari til að gegna starfi borgarlögmanns en Ebba Schram, sem skipuð var í embættið. Ástráður og Ebba eru bæði hæstaréttarlögmenn og voru þau einu umsækjendurnir þegar auglýst var eftir umsóknum síðasta sumar.
Ebba var ráðin til starfa í ágúst í fyrra en hún var talin hæfasti umsækjandinn að teknu tilliti til menntunar og reynslu, að því er fram kom í tilkynningu frá borginni. Ebba starfaði sem lögmaður hjá embætti borgarlögmanns frá árinu 2007, að undanskildum tveim árum á lögmannsstofunni LEX. Þá var hún staðgengill borgarlögmanns frá 2013.
Ástráður kærði ráðninguna og taldi hana brot á jafnréttislögum enda væri hann hæfari til að gegna starfinu. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu 2. júlí að svo væri. Í athugasemdum Ástráðar til kærunefndarinnar er meðal annars bent á að hann hafi á ferli sínum rekið nær 500 mál fyrir héraðsdómi af öllum gerðum en til samanburðar er málafjöldi Ebbu, sem ráðin var í starfið, um 50 og þar af séu 25 barnaverndar- og forsjármál.
Ástráður gaf ekki kost á viðtali þegar leitað var eftir því.
Í úrskurðinum segir að Ástráður hafi fengið þær upplýsingar í samtölum við fyrrverandi borgarlögmann og borgarstjóra að gert væri ráð fyrir að hún myndi sækja um stöðuna og að hún hefði fengið hvatningu frá þeim báðum. Þrátt fyrir það taldi Ástráður fullvíst að ekkert væri fyrirfram ákveðið í þeim efnum og sótti því sjálfur um.
Í úrskurðinum kemur fram að kærði, Reykjavíkurborg, hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði umsækjenda hafi legið ákvörðuninni til grundvallar. Því hafi borgin brotið gegn 26. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem úrskurðað er Ástráði í vil í ráðningarmáli. Ástráður var einn fimmtán umsækjenda sem hæfisnefnd taldi hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt þegar dómurinn var settur á fót.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ákvað hins vegar að skipa Ástráð ekki í embætti, eins og frægt er. Hæstiréttur úrskurðaði síðar að Sigríður hefði brotið lög með skipaninni og fengu Ástráður og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem einnig varð af starfinu, 700.000 krónur hvor í miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar.