Mjög erfið staða blasir við á fæðingardeild Landspítala. Linda Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs spítalans, segir í samtali við mbl.is að erfiðlega gangi að manna vaktir um helgina, og það þrátt fyrir að yfirvinnubann ljósmæðra sé ekki enn skollið á. Undirmönnunin er farin að taka sinn toll.
„Staðan er búin að vera erfið hjá okkur. Síðasta vika var erfið og helgin verður erfið,“ segir Linda sem segir það hafa verið mikil vonbrigði að samningar hafi ekki náðst í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins þegar fundað var í deilunni í gær.
„Við vitum hreinlega ekki hvernig við eigum að takast á við þetta. Við höldum áfram að vinna eftir neyðaráætluninni sem hefur hjálpað okkur í þessum erfiðu aðstæðum,“ segir hún.
Spurð út í yfirvinnubannið segir Linda að ákveðnir verkferlar fari í gang á spítalanum þegar slík verkföll verða. „Þá taka við ákveðnar leikreglur þar sem hægt er að sækja um undanþágur og staðan er öðru vísi en með uppsagnirnar,“ segir Linda.
Fæðingardeildin hefur verið undirmönnuð frá mánaðamótum þegar tólf uppsagnir ljósmæðra tóku gildi en fleiri uppsagnir munu taka gildi um næstu mánaðamót náist ekki samningar fyrir þann tíma. „Við erum langt undir grunnmönnun um helgina,“ segir Linda um stöðuna framundan.
Segir hún að erfiðlega gangi að fá ljósmæður til starfa og segir hún að neikvæð niðurstaða samningafundarins í gær hafi ekki hjálpað til við mönnun vakta. „Þetta starfsfólk okkar hefur staðið sig frábærlega við erfiðar aðstæður, en eðlilega þreytast allir í svona baráttu,“ segir Linda.
Hún segir að megninu til sömu einstaklingana vera að vinna dag eftir dag á spítalanum. „Það segir sig sjálft að á deild sem er mönnuð langt undir grunnmönnun þreytist starfsmenn. Og þegar starfsmenn þreytast getur öryggi verið ógnað,“ segir Linda.