Unnið er að því að fullmóta viðbragðsáætlun vegna fyrirhugaðrar lokunar Ölfusárbrúar um miðjan ágúst. Vegagerðin hefur fundað með helstu viðbragðsaðilum í þeim tilgangi að finna lausn á þeim vandamálum sem lokun brúarinnar hefur í för með sér.
Handrið sem skilur að akbrautina og göngubrautina á brúnni verður fjarlægt sem gerir minni bílum líkt og sjúkrabílum og lögreglubílum kleift að keyra neyðarakstur yfir brúna á gangbrautinni.
Gangbrautin er þó ekki nógu breið fyrir stærri bíla og því verða Brunavarnir Árnessýslu með aðstöðu „fyrir utan á“ í húsi Vegagerðarinnar, þar sem dælubíll slökkviliðsins verður staðsettur. Einnig er til skoðunar hjá slökkviliðinu að staðsetja minni bíla sitt hvoru megin við brúna til að hraða viðbrögðum í neyðartilvikum.
Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, segir óhjákvæmilegt að ráðast í framkvæmdirnar í sumar. Framkvæmdin er háð veðurfari og þegar kalt er í lofti tekur meiri tíma fyrir steypuna að þorna.
„Það eru svo mikil hjólför í slitgólfinu á brúnni, þau eru orðin 40-50 millímetra djúp og það er farið að nálgast í járngrindina á brúnni,“ segir Svanur í samtali við mbl.is
Til stendur að fræsa brúargólfið niður aðfaranótt mánudagsins 13. ágúst og hleypa umferð í kjölfarið yfir brúna fram á mánudagskvöld. Brúnni verður svo lokað aðfaranótt þriðjudags og hún steypt með sérstakri styrktarsteypu sem tekur nokkra daga að þorna.
Svanur reiknar með því að framkvæmdin í heild taki í mesta lagi eina viku.
Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi, hefur ekki miklar áhyggjur af fyrirhugaðri lokun.
„Nei veistu ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Þetta eru eflaust óþægindi fyrir atvinnubílstjóra en frá okkar bæjardyrum séð þá held ég að það verði enginn skortur á viðbragði. Við verðum kannski aðeins lengur yfir brúna en það er bara sekúnduspursmál,“ segir Styrmir í samtali við mbl.is.
Helgi Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, segir ekki gott að þurfa ráðast í þessar framkvæmdir en telur þessa útfærslu besta kostinn í stöðunni.
„Það væri mögulegt að reyna gera þetta með því að halda brúnni opni á annarri akreininni en þá þýðir þetta tveggja vikna ferli. Brúin myndi aldrei þola þá umferð og það myndi stíflast báðum megin við hana,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.
„Eftir að vera búnir að ræða þetta fram og til baka þá töldu menn að þetta væri skásti kosturinn og jafnvel að brúin gæti opnast fyrr. Lokunartíminn er miðaður við verstu aðstæður og hann gæti styst ef það verður gott veður en menn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig,“ útskýrir Helgi.
„Þetta sýnir okkur heimamönnum enn og aftur fram á það hvað þessi brú skiptir miklu máli fyrir samgöngur og hversu mikil þörf er á að fá nýju brúnna sem fyrst. Hún er búin að vera á teikniborðinu í mörg ár,“ bætir Helgi við.