„Ég hafði alltaf mjög gaman af stærðfræði í grunnskóla en það er helst að áhuginn hafi kviknað þegar ég byrjaði í Menntaskólanum í Reykjavík. Þá fékk ég að kynnast raunverulegri stærðfræði ef svo mætti að orði komast,“ segir Elvar Wang Atlason sem hlaut bronsverðlaun á ólympíuleikunum í stærðfræði í vikunni.
Ólympíuleikarnir í ár voru þeir 59. í röðinni og voru þeir haldnir í Rúmeníu. Í keppninni taka þátt yfir 600 stærðfræðingar á framhaldsskólaaldri, en sjálfur er Elvar 19 ára og nýstúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. „Stærðfræðin snerist ekki lengur bara um útreikninga heldur um sannanir og hugmyndir.“
„Ég kunni mjög vel við það og eftir það fékk ég verulega mikinn áhuga og komst inn í ólympíuliðið eftir fyrsta árið í menntaskóla, sem hafði síðan mjög mótandi áhrif á mig og ég hef verið mikið í stærðfræði alla tíð síðan,“ segir Elvar, en hann var að taka þátt í fjórða og síðasta sinn, enda verður hann orðinn tvítugur næst þegar keppnin verður haldin og byrjaður í háskóla. Hann mun hefja nám í stærðfræði við Háskóla Íslands í haust.
Elvar fór til Rúmeníu ásamt fimm öðrum íslenskum drengjum, þeim Tómasi Inga Hrólfssyni, Andra Snæ Axelssyni, Breka Pálssyni, Hrólfi Eyjólfssyni og Ara Páli Agnarssyni. Liðið æfði stíft í aðdraganda keppninnar, en þeir höfðu aðstöðu í Háskóla Íslands og aðgang að fyrrverandi ólympíuförum og kennurum. Þá tóku þeir þátt í norrænum æfingabúðum í Danmörku viku fyrir aðalkeppnina.
Heildarframmistaða íslenska liðsins var sú besta síðan Ísland hóf þátttöku í keppninni, og var Ari Páll aðeins einu stigi frá því að hljóta bronsverðlaun líkt og Elvar. Þá eru einnig veitt verðlaun fyrir að leysa dæmi óaðfinnanlega, en þeir Ari Páll, Tómas Ingi og Hrólfur hlutu slík verðlaun.
Fyrir þá sem ekki þekkja til keppninnar þá samanstendur hún af tveimur keppnisdögum þar sem þátttakendur leysa þrjú miserfið dæmi hvorn daginn. „Dæmin eru í þyngdarröð. Fyrsta dæmið hvorn daginn er auðveldara, annað dæmið miðlungs og það þriðja óleysanlegt, svona innan gæsalappa,“ útskýrir Elvar léttur í bragði.
Keppendur hafa fjórar og hálfa klukkustund til þess að leysa dæmin þrjú, en Elvar segir það ekki jafnmikið og það hljómar enda séu dæmin krefjandi. Keppendur leysa dæmin í stórum sal, fá nóg af blöðum til þess að reikna á og skriffæri en engar reiknivélar eru leyfðar. „Þetta eru ekki svoleiðis dæmi, þetta er mjög sannanamiðað. Við þurfum að færa skýr rök og sannanir fyrir hverju skrefi og útskýra lausnirnar skilmerkilega.“
Fullt hús stiga telur 42 stig, en aðeins tveir keppendur af um 600 náðu þeim árangri þetta árið. Keppendum er svo raðað eftir stigum og fær efsti helmingurinn verðlaun í hlutföllunum 1:2:3. Því fær efsti helmingurinn bronsverðlaun, efsti fjórðungurinn silfurverðlaun og efsti tólftungurinn gullverðlaun.
Athygli vakti að Hafez al-Assad, sonur Bashar al-Assads Sýrlandsforseta, tók þátt með sýrlenska ólympíuliðinu. Elvar segir mikla öryggisgæslu hafa verið í kringum Assad meðan á keppninni stóð og af þeim sökum hafi samgangur þeirra ekki verið mikill. Íslensku strákarnir vinguðust þó við liðsfélaga Assads sem hafði ekkert slæmt um forsetasoninn að segja.
Íslendingur hlaut síðast bronsverðlaun árið 2014, en Íslendingar hafa alls hlotið 11 bronsverðlaun og ein silfurverðlaun frá upphafi þátttöku. Það þykir mjög góður árangur að fá bronsverðlaun og getur Elvar því farið sáttur frá sinni síðustu keppni. Hann er nú á leið til Danmerkur og Færeyja með fjölskyldu sinni og ætlar að nota sumarið í að lesa og undirbúa sig fyrir háskólann.