Skoða kaup á stórri bújörð

Verkefnið er eitt það umfangsmesta í fágætisferðamennsku á Íslandi. Gestum …
Verkefnið er eitt það umfangsmesta í fágætisferðamennsku á Íslandi. Gestum er boðið upp á þyrluferðir og fjölbreytta afþreyingu. Mynd/Eleven Experience

Erlendir fjárfestar hafa sýnt áhuga á að kaupa 2.300 hektara jörð í Fljótunum. Þeir eiga þar lúxushótelið Deplar Farm og nokkrar jarðir.

Eigendur Deplar Farm stofnuðu nokkur félög um reksturinn. Íslenska móðurfélagið er í eigu hollensks félags, Sun Ray Shadow. Það er aftur í eigu félags í Bandaríkjunum.

Ársreikningar íslensku félaganna benda til að fjárfestingin í Fljótunum nemi milljörðum. Þá benda ársreikningarnir til að íslensku félögin séu tengd fjölda erlendra félaga.

Fjárfestingin í Fljótum er ein stærsta einstaka erlenda fjárfestingin í fágætisferðamennsku á Íslandi. Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri félagsins Green Highlander, segir reksturinn á Deplum hafa skapað fjölda starfa. Reksturinn hafi gengið vel. Um 50 manns starfi nú við hótelið á Deplum. Leitað sé til heimamanna við kaup á þjónustu.

Hafa áhyggjur af uppkaupum á jörðum

Skiptar skoðanir eru um jarðakaupin. Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, segir ráðið ekki hafa tekið jarðakaupin til athugunar. „Við höfum ákveðnar áhyggjur af stöðunni, ekki aðeins þarna, heldur almennt vegna uppkaupa á jörðum sem kaupendur ætla ekki til nytja,“ segir Stefán Vagn sem telur ríkið þurfa að grípa til aðgerða. Vandinn sé almennur og á landsvísu.

„Ég held að boltinn sé hjá ríkisvaldinu, þetta verður að byrja þar,“ segir hann. „Mér skilst á Sigurði Inga [Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra], að hann ætli að setja af stað vinnu í þessum málum á landsvísu. Það verður fróðlegt að fylgjast með og við munum klárlega gera það,“ segir Stefán Vagn.

Jóhannes H. Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum, segir starfsemina á Deplum geta gert mikið fyrir atvinnulífið. Hin hliðin á peningnum sé sú að samfélaginu á svæðinu gæti stafað hætta af.

„Við höfum áhyggjur af því að það sé verið að kaupa upp þessar jarðir sem losna, án þess að þar verði föst búseta,“ segir Jóhannes.

Gunnar Steingrímsson, bóndi í Stórholti í Fljótum, seldi erlendum eigendum Depla tvær fasteignir í Haganesvík. Hann segir það kosta sitt að halda við svo gömlum eignum. Þá hafi hann ekki lengur not fyrir þær. Þessar eignir eru á jörð í eigu félagsins Haganes ehf. Það félag er ótengt eigendum Depla.

Ítarlega er fjallað um milljarða fjárfestingu í Fljótunum í Morgunblaðinu í dag.

Þar er meðal annars að finna kort af umræddum kaupum á jörðum og bæjum í Fljótunum. Á lítilli útgáfu kortsins á forsíðu blaðsins má skilja að jörð í Efra-Haganesi komi við sögu. Nákvæmara hefði verið að tilgreina að þar hefðu verið keyptar tvær fasteignir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka