Þorbergur Ingi Jónsson er sigurvegari í karlaflokki í Laugavegshlaupinu 2018. Þorbergur hljóp á tímanum 4:10:44. Þetta er bæði þriðji besti tími Þorbergs í hlaupinu og þriðji besti tími sem náðst hefur í hlaupinu en Þorbergur á fjóra bestu tímana í hlaupinu.
Í kvennaflokki sigraði Rannveig Oddsdóttir en hún fór á besta tíma sem íslensk kona hefur náð í hlaupinu, 5:16:11.
Skráðir í hlaupið voru 553 en að sögn Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsinga- og samskiptastjóra Íþróttabandalags Reykjavíkur, fóru 528 af stað í morgun. Af skráðum voru 53 prósent Íslendingar og 47 prósent erlendir gestir af 29 mismunandi þjóðernum. 70 prósent þeirra sem hlaupa í dag hafa aldrei hlaupið Laugavegshlaupið áður.
Í öðru sæti í karlaflokki var Simon Karlsson sem fór á tímanum 04:32:21 og Ingvar Hjartarson sem var að hlaupa Laugavegshlaupið í fyrsta sinn fór á 04:34:40 og varð þriðji.
Anna Berglind Pálmadóttir varð önnur kvenna á tímanum 05:26:28 og Diana Dzaviza varð þriðja í mark á tímanum 05:30:04.