Vill takmarkanir á jarðakaup

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vill takmarka jarðakaup á Íslandi af hálfu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vill takmarka jarðakaup á Íslandi af hálfu innlendra og erlendra aðila. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vill frekari takmarkanir á jarðakaup á Íslandi og segir það umhugsunarefni fyrir litla þjóð að engar hömlur gildi um stærð jarða sem ganga kaupum og sölum, bæði til innlendra og erlendra aðila. Þetta sagði Katrín í Vikulokunum á Rás 2 í morgun þar sem hún var gestur.

„Það sem við erum að sjá núna er að það er verið að kaupa gríðarlega stórar jarðir af innlendum eða erlendum aðilum, það er kannski ekki stóra málið, sem eru að kaupa upp heilu landshlutana,“ segir Katrín. Morgunblaðið greindi í morgun frá því að erlendir aðilar sem eiga nokkrar jarðir í Fljótunum í Skagafirði sýni áhuga á kaupum á 2.300 hektara jörð á svæðinu.

„Þetta er auðvitað stórmál og þetta snýst auðvitað um það hvernig við lítum á landið. Landið sem auðlind og landið sem hluta af okkar fullveldi,“ sagði Katrín spurð út í kaup erlendra aðila á jörðum á Íslandi. „Fólki kann að finnast það hátíðlegt en það er hluti af okkar fullveldisrétti hvernig við förum með landið sem við eigum.“

Hún nefndi að hægt væri sem dæmi að setja takmarkanir á stærð jarða, fjölda jarða sem hver og einn geti átt, frekari takmarkanir á aðila utan EES og ábúðarskyldu. Sagði hún skýrslu að vænta um jarðakaup í ágúst og að ríkisstjórnin hyggist taka þessi mál til umræðu í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka