Leyfilegt magn áfengis í blóði lækkað

Frumvarp til umferðarlaga miðar meðal annars að því að auka …
Frumvarp til umferðarlaga miðar meðal annars að því að auka öryggi í umferðinni. mbl.is/Golli

Leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði ökumanns verður lækkað úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill samkvæmt nýju frumvarpi til umferðarlaga og er kveðið á um bann við að afhenda eða selja ökumanni eldsneyti sé hann undir áhrifum áfengis eða ávana- eða fíkniefna.

Margar breytingar verða á gildandi umferðarlögum verði nýtt frumvarp þess efnis samþykkt og miða ákvæði hinna nýju laga að því að herða reglur og tryggja skýrari ákvæði. Breytingarnar eru rökstuddar í greinargerð og er þar vísað til mannlegs tjóns sem verður af umferðarslysum, ásamt því að 1-5% af þjóðarframleiðslu glatist vegna slíkra slysa.

Gjöld hækka

Heimilt verður að láta eiganda ökutækis sæta refsiábyrgð ef tekin er mynd af ökutæki hans í hraðamyndavél þó svo að ekki sé hægt að sýna fram á að eigandinn hafi verið undir stýri. Þetta gæti gert það að verkum að bílaleigur myndu bera ábyrgð á þeim sektum sem verða við brot leigjanda.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir við Fréttablaðið í dag að hann telji ekki eðlilegt að bílaleigur sitji uppi með þennan kostnað þar sem óljóst er hvort hægt sé að innhemta hann af leigutaka.

Samkvæmt frumvarpinu hækka nokkur göld svo sem hámarkssekt fyrir umferðarlagabrot sem hækkar úr 300 þúsund krónum í 500 þúsund krónur. Þá munu bifreiðaeigendur sem hafa gleði af einkamerkjum sjá fram á 100% hækkun á gjaldi fyrir einkamerki, úr 25 þúsund krónum í 50 þúsund krónur.

Heimilt að takmarka umferð vegna mengunar

Ýmsar breytingar á umferðarlögum eru svipaðar gildandi reglum, en frumvarpið lögfestir margar reglur svo sem hjálmskyldu hjólreiðarmanna yngri en 15 ára.

Ný umhverfisákvæði eru í frumvarpinu. Meðal þeirra er bann við að óhreinka veg og náttúru með því að fleygja út úr ökutæki eða skilja eftir sorp á eða við veg. Þá verður stjórnvöldum heimilt að takmarka umferð þegar mengun telst yfir viðmiðunarmörkum.

Frumvarpið hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda og er hægt að senda inn umsagnir um frumvarpið til 10. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert