Rútufyrirtækin fagna í kvöld

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum afskaplega ánægð með þessa niðurstöðu en hún er alveg í takt við það sem við áttum von á,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður rútufyrirtækisins Gray Line. Hann segir ljóst að Gray Line og önnur rútufyrirtæki muni fagna í kvöld.

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í dag að Isavia ohf. skyldi tíma­bundið hætta gjald­töku á ytri rútu­stæðum (fjar­stæðum) við Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar meðan Samkeppniseftirlitið skoðar kæru Gray Line. Ákvörðunin gildir út árið, en heimild er til að framlengja hana.

1. mars hófst gjaldtaka Isavia á fjarstæðunum, sem eru um 150 metra frá útgangi flugvallarins. Síðan þá hefur Isavia rukkað 12.900 krónur fyrir hverja heimsókn rútu með fleiri en 46 sæti. Það er raunar afsláttargjald til aðlögunar því til stóð að gjaldið hækkaði í 19.900 krónur 1. september.

180 milljóna bílastæðagjöld á ári 

Gray Line hefur haldið því fram að gjaldtakan sé ólögleg og Isavia misnoti einokunarstöðu sína með verðlagningu sem sé í engu samræmi við útlagðan kostnað. Þórir segir að í úrskurðinum komi skýrt fram að Isavia teljist opinbert fyrirtæki og þá sé auk þess tekið undir að það hafi einokunarstöðu. 

„Þessi gjaldtaka hefði að óbreyttu þýtt 180 milljóna króna kostnað fyrir okkur á ári,“ segir Þórir. Hann er bjartsýnn fyrir lokaniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins en segir ljóst að einhver bið geti verið á henni. „Það sem ég les út úr úrskurðinum er að Samkeppniseftirlitið ætli sér að skoða mikið meira,“ segir Þórir. 

Hann vill ekki segja til um hvort fyrirtækið hyggi á skaðabótamál ef í ljós kemur að gjaldtakan, sem nú hefur staðið í fjóra og hálfan mánuð, reynist ólögleg.

Þórir Garðarsson.
Þórir Garðarsson. Ljósmynd/Aðsend

Íhuga málsókn vegna útboðs

Þórir segir Gray Line þó íhuga málflutning vegna nærstæðanna svokölluðu, þ.e. stæða sem eru við útganginn á Keflavíkurflugvelli. Ólíkt fjarstæðunum er þar ekki rukkað sérstaklega fyrir hverja bílferð heldur var rétturinn að stæðunum boðinn út. Tilboðin voru um greiðslu til Isavia hlutfall af öllum tekjum vegna flutnings farþega frá flugstöðinni og buðu Kynnisferðir best eða 41,2 prósent af tekjum.

„Það liggur fyrir að við vorum með gilt tilboð,“ segir Þórir en hann telur að ógildu tilboði hafi verið tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert