Bóndinn Unnsteinn Hermannsson í Dalabyggð, rétt austan við Búðardal, birti síðastliðna nótt myndskeið þar sem sjá má hvar hann er við slátt á bænum Svarfhóli í Laxárdal í frosti. Greint var frá málinu á budardalur.is.
Þar segir að myndskeið Unnsteins sýni hversu mikill munur getur verið á hita og kulda en hitinn í dag hefur farið í 15 gráður í Búðardal.
Á myndskeiðinu má sjá Unstein að störfum í nótt en hann þurfti til að mynda að brjóta klaka af sláttuvélinni. „Það er frost!“ heyrist Unnsteinn meðal annars segja:
Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að hitinn hafi farið niður fyrir frostmark inn til landsins á vesturhluta landsins síðustu nótt.
Eðlilegt sé að munur sé á hita dags og nætur en óvenjulegt sé að það frysti á nóttunni. Þurrt loft og heiður himinn gerðu það hins vegar að verkum.