Dónaskapur að virða ekki embættið

Sjálfstæðismenn mæta til Þingvalla. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, Bjarni …
Sjálfstæðismenn mæta til Þingvalla. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, Bjarni Benediktsson formaður og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar- og ferðamála. mbl.is/Hari

Þeir sem slá reglu­lega um sig með því að leggja áherslu á lýðræðið, eiga jafn­framt oft erfiðast með að virða niður­stöðu þeirra leik­reglna sem tryggja lýðræðis­lega niður­stöðu. Þetta sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra í Face­book-færslu fyr­ir skemmstu og gagn­rýn­ir þá ákvörðun þing­flokks Pírata að sniðganga hátíðarþing­fund­inn sem nú fer fram á Þing­völl­um vegna veru Piu Kjærs­ga­ard, þing­for­seta danska þings­ins, á fund­in­um.

„Það er til fólk sem slær reglu­lega um sig með því að leggja áherslu á lýðræðið. Vilja fólks­ins. Frelsi hins al­menna kjós­anda til að koma skoðunum sín­um að. Í því sam­hengi er reglu­lega rætt um rétt minni­hlut­ans til að koma sjón­ar­miðum sín­um á fram­færi og hafa áhrif,“ seg­ir Bjarni í færslu sinni.

Þetta sé tryggt í flest­um ríkj­um með al­menn­um, frjáls­um kosn­ing­um og byggt á full­trúa­lýðræði. Þegar á reyni eigi þetta sama fólk hins veg­ar erfiðast með að virða niður­stöðu þeirra leik­reglna sem best tryggi lýðræðis­lega niður­stöðu.

„Það hik­ar ekki við að segja til­tekna rétt kjörna ein­stak­linga óalandi og óferj­andi, jafn­vel með öllu óvel­komna og óhæfa til sam­skipta. Þegar Alþingi Íslend­inga býður for­seta danska þjóðþings­ins til að vera viðstadd­ur hátíðar­höld vegna sögu­legra tíma­móta finnst þessu fólki þannig við hæfi að úti­loka viðkom­andi ein­stak­ling, kos­inn í frjáls­um al­menn­um kosn­ing­um.

Bjarni kveðst sjálf­ur ekki deila skoðunum viðkom­andi stjórn­mála­manns á ýms­um hlut­um og hann hafi skiln­ing á að fólk hafi skoðun á og sé ósam­mála áhersl­um hans. „En það er óskylt lýðræðinu að virða ekki embætti danska þings­ins. Það er yf­ir­læti og bein­lín­is dóna­skap­ur gagn­vart danska þjóðþing­inu og dönsku þjóðinni. Það er mitt viðhorf.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert