Helgi Hrafn Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, segir ákvörðun þingflokksins um að sniðganga hátíðarþingfund á Alþingi hvorki hafa verið auðvelda né skemmtilega. Það skýri hve seint hún er tekin.
Í tilkynningu frá Pírötum sem gefin var út í dag kemur fram að þingflokkurinn muni ekki mæta til hátíðarfundarins á Þingvöllum vegna þess að Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og einn stofnenda þjóðernisflokksins Dansk Folkeparti, verður þar hátíðarræðumaður.
Pia hefur ítrekað komist í fréttir fyrir ummæli sín um útlendinga m.a. lét hún þau orð falla í fréttabréfi flokksins árið 2001 að múslimar væru fólk sem „lygi, svindlaði og blekkti“. Var hún kærð fyrir þessi ummæli en saksóknari lét málið niður falla.
Helgi komst fyrst að því hver yrði hátíðarræðumaður á fundi þingflokksformanna í gær. Hann segist þó ekki hafa kveikt strax á perunni. Forsætisnefnd Alþingis hefur haft hátíðarfundinn til umræðu. Í nefndinni situr Jón Þór Ólafsson fyrir hönd Pírata. Að sögn Helga kannaðist Jón ekki við að til stæði að Pia mætti til fundarins. Jón hafi því leitað í fundargerðum nefndarinnar en ekkert fundið.
Helgi segir nauðsynlegt að hafa í huga hver þessi einstaklingur er. „Að okkar mati stendur hún fyrir hinni hliðinni á þessari togstreitu sem nú er uppi í vestrænu samfélagi milli frjálslyndra lýðræðisgilda og þess sem kalla má „Trump-lega“ nálgun.“
Með því að bjóða henni til fundarins fái hennar sjónarmið einhvers konar viðurkenningu í augum stuðningsfólks hennar, segir Helgi en tekur fram að hann telji alls ekki það hafi verið ætlun þingsins.
Einhugur var innan þingflokksins um ákvörðunina. „Samviska okkar stóð þarna.“