Píratar gerðu engar athugasemdir við komu Kjærsgaard

Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. mbl.is/Eggert

„Eins og ég hef reynt að margsegja í dag þá er Pia Kjærsgaard ekki boðin hingað sem Pia Kjærsgaard eða vegna skoðana sinna. Hún er forseti danska þingsins,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is., um þá ákvörðun að bjóða Kjærsgaard til hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í dag.

„Hún er boðin sem slík og er hér í krafti þess embættis. Vegna hinna sérstöku tengsla Dana við þennan atburð þá var það sjálfgefið að mér fannst, og allra sem töldu, að forseti þingsins myndi hafa sérstaka stöðu í þessu hátíðarhaldi,“ sagði Steingrímur einnig.

Umdeild ákvörðun

Ákvörðunin um að bjóða Kjærsgaard að halda ræðu á þessum sögulega viðburði hefur vakið upp blendnar tilfinningar í þjóðfélaginu eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum í dag.

Þingflokkur Pírata sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem tilkynnt var að flokkurinn myndi sniðganga hátíðarhöldin þar sem að ákvörðun um að „bjóða einum helsta höfundi og talsmanni útlendingaandúðar í Evrópu“ að ávarpa Alþingi væri óforsvaranleg. Þá hefur verið greint frá því að Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi gengið af þingpöllum þegar Pia hóf ræðu sína.

Leiðinlegt að Píratar hafi ekki tekið þátt

Steingrími þykir leiðinlegt að Píratar hafi ekki tekið þátt í hátíðarhöldunum í dag og taldi engan ágreining ríkja um komu Piu Kjærsgaard enda hafi undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma.

„Mér finnst það auðvitað miður og aðallega leiðinlegt fyrir þau að geta ekki tekið þátt í þessu með okkur. Þetta var allt saman undirbúið í mjög góðu og miklu samráði allra flokka og ég hafði ekki hugmynd um að það væri ágreiningur um eitt eða neitt í þeim efnum fyrr en í hádeginu í dag. Þetta kom mér í opna skjöldu,“ útskýrir Steingrímur og segir það hafi legið lengi fyrir að væntanlega yrði það forseti danska þingsins sem yrði ræðumaður á viðburðinum fyrir hönd Danmerkur.

Píratar voru upplýstir

„Það var síðast farið yfir þetta í gær á fundum en auðvitað er þetta búið að liggja í loftinu lengi. Þar áttu Píratar sína fulltrúa og það gerði enginn athugasemdir þannig að ég hafði ekki ástæðu til að ætla annað en að menn ætluðu ekki að gera athugasemdir eða gera stórt mál úr einhverju í þeim efnum. Það er í öllu falli alveg ljóst að Píratar vissu alveg um þetta og voru upplýstir um þetta eins og aðrir,“ bætir hann við.

En það skiptir kannski ekki öllu máli. Menn geta svo bara velt því fyrir sér efnislega hvort þeir séu sammála þeirri afstöðu sem þarna er tekin. Þetta eru í raun samskipti við eina af okkar vinaþjóðum, og Danir voru nú aðilar að samningunum hverra afmæli við erum að halda upp á. Þar léku þjóðþingin, danska þingið og Alþingi Íslendinga, lykilhlutverk. Það einhvern veginn lá nú bara strax fyrir að ef það kæmi til forseti Dana eða hvaða fulltrúi sem það yrði, þá myndi hann verða í sérstöku hlutverki,“ segir Steingrímur einnig.

Helgi Hrafn Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata, sagði við mbl.is í dag að hann hafi fyrst komist að því hver yrði hátíðarræðumaður á þingflokki formanna í gær. Hann sagðist ekki hafa kveikt strax á perunni. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur gagnrýnt Steingrím fyrir þá ákvörðun að bjóða Piu að halda ræðu við hátíðarhöldin en hann var staddur á fundi forsætisnefndar í gær þar sem aðkoma Piu var rædd en hann gerði ekki athugasemdir við hana.

Kjærsgaard vissulega umdeild

Steingrímur telur það síður eiga við að draga stjórnmálaafstöðu eða fyrri störf stjórnmálamanna inn í slíka umræðu þegar þeir hafa verið kosnir forsetar þjóðþinga því þá dragi stjórnmálamenn sig út úr pólitískri umræðu.

„Forsetar draga sig út úr allri pólitískri umræðu og ef allt er í góðu þá eru þeir bara hlutlausir og vandaðir forsetar þinga og afsala sér í raun og veru rétti til að blanda sér í pólitíkina. Þannig að það mætti frekar heimfæra þetta upp á þá sem eru áfram virkir í pólitískri baráttu með sín sjónarmið,“ segir hann.

Steingrímur áttar sig þó á því að Pia hefur verið umdeild sem stjórnmálamaður.

„En núna er hún forseti danska þingsins. Hún er kosin af þingmönnum til að vera í forystu fyrir sig og Danmörk er nú ein okkar bræðra- og vinaþjóða og mér finnst þar af leiðandi að það þurfi nú meira en þetta til að taka ekki gildan þann þingforseta sem Danir hafa kosið sér,“ segir Steingrímur og kveðst vera leiður yfir yfir því en að öðru leyti ánægður með hátíðina.

Pia Kjærsgaard.
Pia Kjærsgaard. Ljósmynd/Twitter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka