Sprengjan sem fannst í Mosfellsbæ um hádegisbil var virk. Þetta segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sprengjusveitarmenn frá ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni eru á vettvangi og sprengdu hana rétt í þessu. Henni var komið fyrir ofan í holu, sandpokar settir ofan á hana og minni sprengja frá sprengjusveitarmönnum sett við hlið hennar. Þegar búið var að rýma svæði í um 500 metra radíus frá holunni var litla sprengja sprengjusveitarmannanna síðan sprengd og við það sprakk hin einnig.
Sprengjan fannst ekki í jörðu niðri heldur með jarðvegi sem nota átti á svæðinu. Framkvæmdir eru í gangi á Blikastaðanesi og búið að grafa upp og skipta út lögnum. Fylla átti upp í skurðinn með nýjum jarðvegi frá Björgum, sem kom með sendibíl. Þegar átti að moka jarðveginum ofan í skurðinn kom sprengjan í ljós. Hún er um 30 sentimetra löng, ílöng og oddhvöss.
Valgarður segir ljóst að mun verr hefði getað farið úr því að sprengjan reyndist virk. Lögreglu barst fyrst tilkynning um sprengjuna klukkan 11:51.