Byssa fannst hjá bílþjófum í borginni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann byssu og fíkniefni í stolnum bíl …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann byssu og fíkniefni í stolnum bíl í dag. mbl.is/Eggert

Í morgun stöðvuðu lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu par á stolnum bíl, en í bílnum fundust einnig fíkniefni og skotvopn, en búið var að saga framan af hlaupi byssunnar og stytta skeftið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, þar sem farið er yfir nokkur þau verkefni sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti í dag.

Veðrið lék við höfuðborgarbúa í dag og margir lögðu leið sína í sundlaugarnar. Það endaði þó ekki vel hjá öllum og sinnti lögreglan tveimur slysum í sundlaugum, þar sem gestir meiddust eftir fall. Bæði slysin voru þó minniháttar.

Sami þjófurinn gómaður tvisvar

Um kl. 17 í dag var tilkynnt um þjófnað úr verslun á Laugavegi. Þjófurinn var enn á vettvangi er lögreglu bar að garði og var honum sleppt að skýrslutöku lokinni.

Nokkru seinna fóru sömu lögreglumenn í mál þar sem farsíma var stolið á kaffihúsi við Laugaveg. Eigandi símans gat rakið símann og reyndist þjófurinn vera sá sami og var á ferðinni fyrr um daginn. Hann var handtekinn og bíður skýrslutöku.

Lögreglumenn handtóku mann sömuleiðis mann í Árbænum, grunaðan um nytjastuld á bifreið fyrr um daginn.

„Maðurinn var í framhaldi færður í afplánun vegna eldri synda,“ að því er segir í dagbók lögreglu.

Stakk af frá árekstri

Skömmu fyrir 20 í kvöld var síðan tilkynnt um umferðaróhapp í Mosfellsbæ, þar sem ökumaður annarrar bifreiðarinnar ók strax í burtu af vettvangi.  Lögreglumenn hófu leit í nágrenninu og handtóku að lokum karlmann sem grunaður er um aksturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert