Hvalurinn ekki steypireyður

Erlendir fjölmiðlar og sérfræðingur héldu því margir fram að hvalurinn …
Erlendir fjölmiðlar og sérfræðingur héldu því margir fram að hvalurinn væri steypireyður. Ljósmynd/Hard To Port

Hvalurinn sem Hvalur hf. veiddi aðfaranótt 8. júlí síðastliðinn er blendingshvalur en ekki steypireyður. Þetta staðfesti erfðarannsókn á sýni hvalsins. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar var móðirin steypireyður en faðirinn langreyður.

„Þetta kom okkur ekki á óvart. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem svona sést en í ljósi allrar umræðunnar bæði innanlands og utanlands þá töldum við rétt að flýta greiningunni til að fá þetta staðfest,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, talsmaður Hafrannsóknarstofnunar.

Dýra­vernd­un­ar­sam­tök­in Hard To Port birtu mynd á Face­book-síðu sam­tak­anna þar sem stungið er upp á því að hvalurinn sem veiðst hafði væri fágætur blendingshvalur. Í kjölfarið tóku erlendir fjölmiðlar að fjalla um málið og víðast hvar var hvalurinn sagður vera steypireyður.

Þorsteinn segist ekki vita af hverju erlendir sérfræðingar og fjölmiðlar hafi sagt í fréttaflutningi sínum að hvalurinn væri steypireyður þar sem ytri einkenni hvalsins sem sjást á yfirborði sjávar hafi öll svipað til langreyðar. „Einkenni steypireyðar sjást þegar þú ferð undir yfirborðið á kviðnum og þú sérð það náttúrulega ekki fyrr en dýrið er fallið og komið í land. Þannig það var enginn vafi hjá okkar starfsfólki.“

Ekki hægt að ruglast á tegundum

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf. segir að niðurstöður erfðarannsóknarinnar hafi ekki komið honum á óvart frekar en starfsfólki Hafrannsóknarstofnunar. „Þetta passar alveg við það sem ég hef sagt áður. Þetta lá alveg klárt fyrir og var aldrei nein spurning.“

Veiðar á Steypireyði eru ólöglegar við Íslandsstrendur og ekki víst hvaða viðurlögum Hvalur hf. hefði þurft að sæta hefði niðurstaða rannsóknarinnar verið sú að hvalurinn væri steypireyður.  

„Ég var ekkert stressaður yfir þessu. Ég var alveg sannfærður um þetta. Við erum búin að vera í þessu það lengi. Sjómennirnir okkar þekkja alveg muninn á langreyði og steypreyði, þeir eru allt öðruvísi þegar þú sérð þá í sjónum. Þeir kunna sitt fag.“

Hvalur hf. hóf veiðar á langreyðum aftur í sumar eftir tveggja ára hlé og hafa það sem af er sumars veitt um það bil fjörtíu hvali. Blendingshvalurinn sem veiddist var númer tuttugu og tvö í röðinni.

Fimmti blendingurinn frá 1983

Fimm afkvæmi langreyðar og steypireyðar hafa veiðst við Íslandsstrendur frá árinu 1983 og þar af hafa starfsmenn Hvals hf. landað fjórum. Við erfðagreiningu hvalsins sem fór fram á rannsóknarstofu MATÍS var sýni hvalsins greint ásamt öðrum sýnum úr blendingum sem safnað hefur verið úr atvinnureiðum frá því að fyrsti blendingurinn veiddist árið 1983.

Á myndinni má sjá niðurstöður fyrir alla hvalina sem rannsakaðir …
Á myndinni má sjá niðurstöður fyrir alla hvalina sem rannsakaðir voru. Einleitu rauðu súlurnar sýna langreyði en grænu heilu súlurnar sýna eldri sýni úr steypireyði. Þau 5 sýni sem eru bæði rauð og græn eru úr hvölum sem greinast sem blendingar. Umræddur hvalur er númer 22. Ljósmynd/ Hafrannsóknarstofnun

Þá voru sýni úr langreyðum og steypireyðum einnig skoðuð til samanburðar. Niðurstöður greininganna staðfesta að allir hvalirnir sem greindir  hafa verið sem blendingar af útlitseinkennum eru blendingar af fyrstu kynslóð þar sem annað foreldrið var hreinn steypireyður og hitt foreldrið langreyður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert