Loka meðgöngu- og sængurlegudeild

Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans verður lokað á morgun.
Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans verður lokað á morgun. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans verður lokað á morgun og starfsemi hennar sameinuð kvenlækningadeild 21A vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í fæðingarþjónustu í kjölfar uppsagna og yfirvinnubanns ljósmæðra. Þá mun ómskoðun á 11. til 14. viku meðgöngu falla niður frá og með mánudeginum 23. júlí. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá spítalanum í kjölfar þess að fundi samninganefnda ljósmæðra og ríkisins var slitið uppúr hádegi án þess að lausn hefði náðst.

Ljósmæður sem sinnt hafa fyrstu reglubundnu ómskoðunum, á 11. til 14. viku, munu hverfa til annarra starfa í fæðingarþjónustu. Um er að ræða ómskoðun sem er í raun fyrsta fósturgreining. Önnur fósturgreining mun áfram standa verðandi foreldrum til boða, sem og tilfallandi bráðaskoðun.

Gert er ráð fyrir því að þessar ráðstafanir standi á meðan kjaradeila ljósmæðra stendur yfir.

Yfirvinnubann ljósmæðra tók gildi aðfaranótt miðvikudags og í kjölfar þess hefur hættuástand skapast á Landspítala, en tólf ljósmæður hættu störfum um mánaðamótin og hafa allar vaktir verið undirmannaðar síðan. Níu börn hafa fæðst á Landspítalanum það sem af er degi, auk þess sem tvær ófrískar konur voru sendar með flugi til Akureyrar í gær og í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert