Öflugasta hljóðkerfi í tónlistarsögu Íslands

Verið er að reisa sviðið fyrir tónleika Guns N' Roses.
Verið er að reisa sviðið fyrir tónleika Guns N' Roses. Ljósmynd/Aðsend

Mikill hasar verður í Laugardalnum næstu vikuna þar sem að undirbúningur fyrir tónleika Guns N‘ Roses er farinn á fullt. Um 160 manns koma að verkefninu sem er gríðarlega umfangsmikið. Hljóðkerfið verður það stærsta í íslenskri tónlistarsögu, segir í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum tónleikanna.

Öflugasta hljóðkerfið

„Hljóðkerfið fyrir tónleikana er af gerðinni JBL Pro frá bandaríska fyrirtækinu Harman. Þetta er öflugasta hljóðkerfi sem sett hefur verið upp á Íslandi með rúmlega 100 hátölurum og fjórum „delay“-turnum sem tryggja jafnt og þétt hljóð um allan Laugardalsvöll,“ er haft eftir Friðriki Ólafssyni í tilkynningunni.

„Síðan má ekki gleyma öllum eldvörpunum og reyksprengjunum, ásamt ógleymanlegri ljósasýningu. Þetta verður bara geggjað,“ er einnig haft eftir Friðriki í tilkynningunni.

„Samanborið við þá tónleika sem áður voru taldir stærstir á Íslandi, sem voru Rammstein í fyrra, þá var það helmingurinn af því sem þetta er núna,“ segir Björn Teitsson, skipuleggjandi tónleikana í samtali við mbl.is.

Tölvugerð teikning þar sem sjá má stærðarhlutföllin eins og þau …
Tölvugerð teikning þar sem sjá má stærðarhlutföllin eins og þau munu blasa við tónleikagestum á þriðjudag. Mynd/Tómas Pétursson

Þriggja tíma keyrsla

Tónleikarnir fara fram þriðjudagskvöldið 24. júlí og opnað verður fyrir aðgang á svæðið klukkan 16:30. Guns N‘ Roses stíga á svið klukkan 20 og „búast má við mikilli keyrslu í rúmar þrjár klukkustundir, segir í tilkynningunni.

Björn segist reikna með því að meðlimir Guns N‘ Roses verðir stundvísir og láti ekki bíða eftir sér.

„Í þessum túr hefur fagmennskan skinið í gegn sem var náttúrulega alls ekki málið með þessa hljómsveit forðum daga. Þetta eru rólyndismenn í dag það hefur allt gengið smurt í þessum túr. Þeir hafa verið stundvísir og hafa verið að spila feikilega langa og góða tónleika,“ segir Björn og reiknar með að þetta verði „bara keyrsla“ í þrjá tíma og bætir því við að hljómsveitin taki sér ekki hlé á tónleikunum.

Hljómsveitin Tyler Bryant & the Shakedowns hefja upphitun klukkan 18 og svo mun íslenska stórsveitin Brain Police taka við keflinu.

„Fyrir íslenska aðdáendur fannst okkur mikilvægt að fá íslenska sveit þarna inn sem skýrir aðkomu Brain Police. Við erum búnir að vera rosalega ánægðir með viðbrögðin við þeim fréttum og að Brain Police sé tilbúin að koma saman,“ segir Björn.

Risastórt svið

Sviðið verður 65 metra breitt og 22 metrar á hæð þar sem það rís hæst. Þrír risaskjáir koma til með að sýna áhorfendum hvert einasta smáatriði sem fer fram, samkvæmt upplýsingum frá skipuleggjendum.

Starfsfólk hefur þegar hafist handa við að leggja tímabundið gólf yfir Laugardalsvöllinn sem mun vernda grasið. Gólfið sem er frá fyrirtækinu ArmorDeck þykir með því fullkomnasta sem gerist í verndun á grasi fyrir stórviðburði, segir einnig í tilkynningunni.

Undirbúningurinn er mjög umfangsmikill.
Undirbúningurinn er mjög umfangsmikill. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert