Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, segir mikinn heiður að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í hátíðarþingfundinum á Þingvöllum í gær. Þetta kemur fram í færslu sem hún birtir á Facebook.
Pia er heilluð af Þingvöllum. Hún rifjar upp 1100 ára sögu Alþingis, sem lengst af var háð á Þingvöllum og segir anda sögunnar svífa yfir vötnum. Þá sé auðvelt að ímynda sér hvernig hraunið getur litið út eins og tröll og veitt Íslendingum innblástur í sögur um hinar goðsagnakenndu verur.
Með færslunni birtir Pia mynd af sér og Vigdísi Finnbogadóttur, sem hún segir ánægjulegt að hafa fengið að hitta.
Pia Kjærsgaard var ræðumaður á hátíðarþingfundinum í gær og óhætt að segja að koma hennar hafi sett svip sinn á fundinn.
Þingflokkur Pírata sniðgekk til að mynda fundinn í mótmælaskyni við það að Piu skyldi boðið og þá gekk Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, á braut þegar Pia steig í ræðustól.
Pia er einn stofnenda danska þjóðernisflokksins Dansk Folkeparti. Hún hefur ítrekað komist í fréttir fyrir ummæli sín um útlendinga m.a. lét hún þau orð falla í fréttabréfi flokksins árið 2001 að múslimar væru fólk sem „lygi, svindlaði og blekkti“. Var hún kærð fyrir þessi ummæli en saksóknari lét málið niður falla.