„Afskipti samninganefndar ríkisins af störfum undanþágunefndarinnar hafa verið mjög mikil og óeðlileg,“ segir Unnur Berglind Friðriksdóttir, fulltrúi ljósmæðra í undanþágunefnd sem afgreiðir umsóknir sem berast um undanþágur frá yfirvinnubanni ljósmæðra.
Unnur segir að að þar fari fremst í flokki Sara Guðbergsdóttir, starfsmaður fjármálaráðuneytisins, sem situr í samninganefnd fyrir hönd ríkisins.
„Hún hefur meðal annars sakað mig um að vinna ekki vinnuna mína og að það liggi stór bunki af ósamþykktum umsóknum [um undanþágur frá yfirvinnubanninu], sem er ekki rétt. Það er rosalega erfitt fyrir mig að þurfa stöðugt að verja mig fyrir ásökunum hennar,“ segir Unnur. Sífellt sé reynt að hanka hana á einhverju.
Unnur situr nú í undanþágunefnd fyrir hönd ljósmæðra í þriðja sinn en hún var áður í nefndinni í verkföllum árin 2008 og 2015. Hún segir afskiptin nú fordæmalaus.
Auk Unnar situr Ingibjörg Hreiðarsdóttir ljósmóðir í nefndinni fyrir hönd ríkisins. Unnur segir samstarf hennar og Ingibjargar hafa verið gott og að hún sé mjög heppin með mótaðila í nefndinni.
Það sé engu að síður óvenjulegt að Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, stilli ljósmóður upp sem fulltrúa ríkisins í deilunni að því er virðist til að egna tveim ljósmæðrum saman. „Það er ákveðin taktík af hans hálfu en mjög ósmekkleg,“ segir Unnur en ítrekar þó að hún sé heppin með Ingibjörgu sem mótaðila.
„Gunnar Björnsson [formaður samninganefndar ríkisins] hefur haldið því fram í áratugi að ljósmæður séu óþarfar, en ég held að við séum að sýna það núna að svo er ekki.“
Undanþágunefndinni hafa borist tugir umsókna frá því verkfall hófst aðfaranótt miðvikudags. Allar hafa þær verið samþykktar nema ein umsókn frá Landspítalanum sem var hafnað í fjórgang í gærkvöldi en síðan samþykkt þegar hún barst í fimmta sinn síðar um kvöldið þar sem ástand var talið hafa versnað.
Í samtali við mbl.is sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, að kjaranefnd Ljósmæðrafélagsins myndi funda í kvöld ásamt aðgerðanefnd og verkfallsvörðum um meint verkfallsbrot á fæðingardeildum landsins síðustu daga.