Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir miður að Steingrímur J. Sigfússon þingforseti kjósi að hafa rangt við í fréttatilkynningu og bréfi sem hann sendi Piu Kjærsgaard kollega sínum á danska þinginu. Fer hún þess á leit við Steingrím að hann leiðrétti rangfærslurnar. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hennar.
Pia var heiðursgestur á hátíðarþingfundi á Þingvöllum og ávarpaði þingheim, ein fárra erlendra gesta til að gera slíkt. Þingflokkur Pírata sniðgekk fundinn vegna komu Piu, en þeir eru ósáttir við útlendingastefnu Piu og Danska þjóðarflokksins, sem hún stofnaði og leiddi til ársins 2012.
Í afsökunarbeiðni Steingríms til Piu, sem Helga vísar til, segir meðal annars að Steingrími þyki mjög leitt að heimsókn forseta danska þingsins sé „notuð til að kasta rýrð á hátíðarhöldin“.
Helga bendir á mótmæli hennar hafi ekki snúið að Kjærsgaard sem fulltrúa dönsku þjóðarinnar „heldur framgöngu hennar og hatursorðræðu gagnvart útlendingum og flóttamönnum“.
Hún segir að með rangfærslum sínum hafi Steingrímur kosið að mála þá mynd að „þau okkar sem mótmælum hatursorðræðu og stöndum með mannréttindum allra séum með því að kasta rýrð á danska þjóð.“
Kjærsgaard hefur sjálf sagt að gagnrýni Helgu Völu og Pírata sé „fáránleg og til skammar“. Í viðtali við fréttastofu RÚV í gær segist hún telja að vandi þessara flokka [Pírata og Samfylkingar] felist í veruleikanum í Danmörku og að mótmælin megi rekja til samkeppni milli þeirra um hvorn ber hærra í fjölmiðlum.
Björn Leví Gunnarsson Pírati tekur í sama streng og Helga Vala á Facebook. Hann segir að mótmælin hafi verið skrumskæld af ráðherrum, þingforseta og Kjærsgaard sjálfri.
„Það hlýtur að vera skýlaus réttur allra að mótmæli þeirra séu ekki afbökuð og látin snúast um annað en tilætlunin er. Það er einfaldlega óheiðarlegt að snúa svona út úr.“