Breski auðmaðurinn James Ratcliffe og viðskiptafélagar hans eiga nú hátt í 40 jarðir á Íslandi. Um 30 þessara jarða eru í Vopnafirði. Þá eiga þeir aðild að á þriðja tug félaga. Flest eru í eigu móðurfélags í Lúxemborg.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur frma að Ratcliffe er skráður fyrir stórum hluta í Veiðiklúbbnum Streng í gegnum eignarhluti í bresku félagi.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs, segir þessi kaup hafa miðað að því að tryggja réttindi í kringum laxveiði.
„Það er gert af áhuga á að byggja hana upp. Það hófst í Vesturdalsá. Svo hófst sú vinna í Selá, Hofsá og Hafralónsá. Markmiðið er að reyna að efla laxagengd í ánum því ef við komum þeim í þær tölur sem við viljum sjá – við höfum sett okkur markmið í þeim efnum – verður þetta paradís á jörð,“ segir Gísli.
Gísli segir erlent efnafólk greiða mikið fyrir að fá að veiða í friði. Með samstarfi við Ratcliffe skapist tenging við eignamenn sem flestir heimamenn hafi ekki aðgang að. Uppbyggingin sé liður í að efla fágætisferðaþjónustu á Íslandi. Hann segir áform um mikla fjárfestingu við Hafralónsá hafa verið sett á ís eftir að veiðifélag gerði kröfur um hátt leiguverð.
Feðgarnir Marinó Jóhannsson og Ævar Rafn Marinósson í Tunguseli í Langanesbyggð gagnrýna jarðakaup Ratcliffe og félaga. Hafi lögmaður þrýst á þá að selja jörðina.
„Þeir hafa mikið hamast í okkur. Þetta teljast nánast ofsóknir. Afstaða okkar feðga er sú að við erum ekki síður að verja veiðifélagið og halda því heima. Ef við missum meirihlutann er allt farið,“ segir Marinó, en Ratcliffe og viðskiptafélagar eiga nú jarðir í kring.
Þá segja feðgarnir að þrýst hafi verið á þá að setja tugi milljóna í nýja girðingu. Slíkar kröfur hafi ekki verið gerðar áður. Almennur sauðfjárbóndi geti ekki staðið undir þeim.
Athygli vekur að ekki virðist getið um hluthafa í félaginu Dylan Holding í Lúxemborg, sem á fjölda jarða á Norðausturlandi í gegnum eignarhald sitt á íslenskum félögum.