„Þetta hefur miklu alvarlegri áhrif á rekstur smárra fyrirtækja, þessi aðgangseyrir. Þetta skekkir mjög alla eðlilega og heiðarlega samkeppni,“ segir Steinþór Ólafsson, eigandi ferðaþjónustunnar Steinferðir ehf.
Steinþór segist hafa þurft að hætta ferðum sínum upp á Leifsstöð til að sækja viðskiptavini eftir að Isavia lagði gjald á afnot af ytri rútustæðum við flugvöllinn. „Ytri stæðin hafa alla tíð verið gjaldfrjáls og hugsuð fyrir fyrirtæki sem eru þarna til að sækja einstaka hópa. Ég fann verulega fyrir því þegar þetta gjald kom og það var íþyngjandi,“ segir Steinþór.
„Maður verður of dýr þegar maður ætlar að fara leggja þetta ofaná og ég er bara kominn út af markaðnum. Stóru fyrirtækin eiga eflaust auðveldara með að leggja þetta á kúnnann en það á ekki við um mig þannig þetta hefur haft veruleg áhrif á mína samkeppnisaðstöðu.“
Samkeppniseftirlitið tók á þriðjudag bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia ohf. var gert að stöðva tímabundið gjaldtöku á ytri rútustæðum (fjarstæðum) við Leifsstöð. Gjaldtaka Isavia hófst á fjarstæðunum í byrjun mars síðastliðnum en síðan þá hefur Isavia rukkað 12.900 krónur af hverri rútuferð sem er samkvæmt Isavia afsláttargjald af 19.900 krónum.
Tvö rútufyrirtæki, Kynnisferðir og Hópbílar, hafa þó afnot af innri stæðum eftir að rétturinn um afnot á þeim var boðinn út á síðasta ári. Þá buðu Kynnisferðir rúmlega 40% af þeim tekjum sem fyrirtækið fær af ferðum sínum frá Leifsstöð fyrir notkun stæðanna.
Steinþór segir umræðu um gjaldtöku á ytri stæðunum ekki hafa verið á milli Isavia og rútufyrirtækja áður en útboðið á innri stæðunum fór fram. „Þetta hafði ekki verið í neinni umræðu. Við fengum ekkert að vita þetta fyrr en eftir síðasta útboð á innri stæðunum. Þá bauð Allrahanda (Grayline) ekki nægilega hátt í stæðin og ákvað að nota ytri stæðin endurgjaldslaust. Þá kemur Isavia með þetta gjald eins og einhverskonar hefndarráðstöfun gegn Grayline og það bitnar á öllum hinum. Minni fyrirtækjunum.“
Þá segist Steinþór hafa tekið eftir því að sífellt færri minni rútufyrirtæki hafi haft tök á því að sækja farþega á Leifsstöð eftir að gjaldið var sett á stæðin. Sjálfur hafi hann þurft að skipta um viðskiptahóp þar sem það gekk ekki lengur upp fyrir fyrirtæki hans að fara í ferðir þar sem viðskiptavinir eru ferjaðir fram og tilbaka frá flugvellinum líkt og hann hefur ætíð gert.
Úrskurður Samkeppniseftirlitsins gildir út árið og þá má gera ráð fyrir því að gjaldið verði annað hvort lækkað eða afnumið. Aðspurður segir Steinþór klárlega ætla að hefja ferðir til og frá Leifsstöð aftur, fari svo að gjaldið verði afnumið.