Harmar tilhæfulausar ásakanir ljósmóður

Gunnar Björnsson segir störf undanþágunefndarinnar ekki einkamál ljósmæðra.
Gunnar Björnsson segir störf undanþágunefndarinnar ekki einkamál ljósmæðra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samninganefnd ríkisins harmar að fulltrúi ljósmæðra kjósi að setja fram tilhæfulausar aðdróttanir í frétt sem birtist á mbl.is. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Gunnar Björnsson, formaður nefndarinnar, sendir mbl.is.

Í fréttinni sem Gunnar vísar til gerir Unnur Berglind Friðriksdóttir, sem situr í undanþágunefnd í kjaradeilunni, athugasemd við það sem hún kallar „mik­il og óeðli­leg“ afskipti samn­inga­nefnd­ar rík­is­ins af störf­um und­anþágu­nefnd­ar­inn­ar, en hlutverk undanþágunefndar er að afgreiða beiðnir sem berast um undanþágur frá yfirvinnubanni ljósmæðra, sem staðið hefur yfir síðan á miðvikudag.

Við afgreiðslu lítur nefndin til þess hversu mikil þörf er talin á fleiri starfsmönnum með hliðsjón af öryggi móður og barna. Fram kom í fréttinni í gær að nefndin hefur tekið fyrir tugi umsókna og samþykkt allar nema eina sem kom frá Landspítala í fyrrakvöld en var hafnað í fjórgang. Hún var þó samþykkt þegar hún barst í fimmta sinn þar sem ástand á fæðingardeild var talið hafa versnað, að sögn Unnar.

„Sá misskilningur virðist vera hjá viðkomandi fulltrúa ljósmæðra að undanþágunefndin sé einkamál ljósmæðra og fulltrúa ríkisins komi ekki við hvernig hún starfi. Það er rangt því nefndin er byggð á sérstöku lagaákvæði þar sem sérstaklega er tilgreint að fulltrúar beggja aðila eiga fulltrúa í henni,“ segir í yfirlýsingunni.

Afskipti ríkisins hafi eingöngu komið til í kjölfar ábendinga frá heilbrigðisstofnunum um starfshætti fulltrúa ljósmæðra.  

Gunnar segir að nauðsynlegt sé að umsóknir um undanþágur séu afgreiddar hratt og örugglega, en því miður hafi orðið misbrestur þar á vegna þess að fulltrúi ljósmæðra í nefndinni hafi verið erlendis.

Landspítalinn óskaði sérstaklega eftir að ljósmóðir sæti í undanþágunefndinni fyrir …
Landspítalinn óskaði sérstaklega eftir að ljósmóðir sæti í undanþágunefndinni fyrir hönd ríkisins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn bað um ljósmóður

Auk Unnar Berglindar situr Ingibjörg Hreiðarsdóttir ljósmóðir í nefndinni, sem fulltrúi ríkisins. Í samtali við mbl.is í gær sagði Unnur að hún teldi óvenjulegt að ljósmóður væri teflt fram sem fulltrúa ríkisins, „að því er virðist til að egna tveim ljósmæðrum saman“.

Gunnar bendir á að það sé mikilvægt að sá sem situr í undanþágunefnd hafi innsýn í störf viðkomandi hóps til að tryggja að undanþágubeiðnir fái faglegt mat. Það hafi verið sérstök beiðni frá Landspítalanum að Ingibjörg yrði tilnefnd og var það samþykkt.

Yfirlýsing Gunnars Björnssonar í heild sinni:

Samninganefnd ríkisins harmar að fulltrúi ljósmæðra kjósi að setja fram tilhæfulausar aðdróttanir í frétt sem birtist á mbl.is í gær. Sá misskilningur virðist vera hjá viðkomandi fulltrúa ljósmæðra að undanþágunefndin sé einkamál ljósmæðra og fulltrúa ríkisins komi ekki við hvernig hún starfi. Það er rangt því nefndin er byggð á sérstöku lagaákvæði þar sem sérstaklega er tilgreint að fulltrúar beggja aðila eiga fulltrúa í henni. Fulltrúi ljósmæðra hefur kosið að líta fram hjá því og agnúast mjög út í að fulltrúar ríkisins vilji vita hvernig staðan er og koma á skilvirku verklagi til að tryggja hraða afgreiðslu. Afskipti fulltrúa ríkisins hafa eingöngu komið til í kjölfar ábendinga frá heilbrigðisstofnunum um  starfshætti fulltrúa ljósmæðra. Eðli máls samkvæmt þarf að afgreiða undanþágubeiðnir hratt og örugglega en þar sem fulltrúi ljósmæðra er erlendis hefur því miður orðið misbrestur á því. Hvað varðar ákvörðun um að ljósmóðir sé í undanþágunefnd þá telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að til að tryggja faglegt mat sé nauðsynlegt að viðkomandi hafi innsýn í störf viðkomandi hóps sem er í verkfalli. Jafnframt var það sérstök beiðni frá Landspítala að þessi tiltekni einstaklingur yrði tilnefndur og var það samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert