Koma danska þingforsetans rædd fyrir ári

Steingrímur ávarpar Alþingi á hátíðarfundi á Þingvöllum.
Steingrímur ávarpar Alþingi á hátíðarfundi á Þingvöllum. mbl.is/​Hari

Enginn þeirra þingmanna sem sitja í forsætisnefnd Alþingis telja að þeir hefðu gert athugasemd við aðkomu Piu Kjærsgaard að fullveldisafmælinu, lítandi til baka, nema Jón Þór Ólafsson. „Aldrei dottið það í hug. Ég er ekki að fá einstaklinginn, ég er að fá forseta þingsins,“ segir Brynjar Níelsson.

Hugmyndin um að fá forseta danska þingsins til hátíðarfundarins á Þingvöllum í tilefni fullveldisafmælis var rædd á fundi forsætisnefndar fyrir tæpu ári. Ekki minnast allir þingmenn sem eiga sæti í nefndinni þess að nafn Kjærsgaard hafi verið sérstaklega rætt. 

„Hugmyndin um að Kjærsgaard yrði ræðumaður er rædd á fundi forsætisnefndar um miðjan ágúst 2017. Þá er undirbúningurinn undir þennan fund á dagskrá sumarfundar forsætisnefndar. Þá er það rætt í forsætisnefnd og þar sýnd drög að mögulegri dagskrá og þar er ávarp erlends gests innan sviga,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is, um hvenær aðkoma Kjærsgaard að hátíðarfundi Alþingis kom fyrst fram.

„Þannig að það eru að verða ársgamlar upplýsingar fyrir þá sem hafa setið með fullri meðvitund í forsætisnefnd að sá sem ávarpaði yrði forseti danska þingsins,“ bætir hann við.

„(forseti danska þjóðþingsins?)“

Steingrímur segir að drögin, sem tilnefna Kjærsgaard sem ræðumann á hátíðarfundinum, hafi verið samþykkt án athugasemda á fundi forsætisnefndar í ágúst á síðasta ári og þar með hafi þáverandi forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, og skrifstofa Alþingis fengið umboð til að ljúka undirbúningi vegna hátíðarfundarins.

Þetta hefur fengist staðfest frá skrifstofu Alþingis en í skriflegu svari sem mbl.is barst í gær segir: „Á sumarfundi forsætisnefndar 14.-15. ágúst 2017 fengu forseti Alþingis og skrifstofustjóri Alþingis umboð til að undirbúa Þingvallafundinn á grundvelli minnisblaðs sem lagt var fram á fundinum um hátíðarfundinn og fyrirkomulag hans. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að forseti danska þingsins flytji ávarp á Þingvöllum 18. júlí.“

Í drögunum sem samþykkt voru í ágúst er lagt til að fulltrúi erlendra gesta flytji ræðu. Inni í sviga stendur „forseti danska þjóðþingsins?“

Drög að dagskrá hátíðarfundar Alþingis sem voru samþykkt án athugasemda …
Drög að dagskrá hátíðarfundar Alþingis sem voru samþykkt án athugasemda á fundi forsætisnefndar í ágúst 2017. Skjáskot

Steingrímur segir spurningarmerkið vera tilkomið vegna þess að á þeim tímapunkti hafi verið óstaðfest hvort forseti danska þingsins kæmist á hátíðarfundinn enda var á þeim tíma næstum því eitt ár í fundinn.

Undir það tekur Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem situr í forsætisnefnd.

„Spurningamerkið snýr að því að á þeim tíma er ekki vitað hvort forseti danska þjóðþingsins geti mætt 18. júlí sumarið eftir. Þetta er langur aðdragandi og mikið skipulag,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is.

Spurningarmerki við spurningarmerkið

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sem hefur gagnrýnt harðlega þá ákvörðun að bjóða Kjærsgaard á hátíðarfundinn til að ávarpa Alþingi á Þingvöllum setur spurningarmerki við spurningarmerkið í drögunum sem samþykkt voru í ágúst.

Hann telur að spurningarmerkið sé tilkomið vegna þess að sá möguleiki að fá forseta danska þingsins sem ræðumann hafi í raun verið einn af mörgum mögulegum kostum í stöðunni en ekki vegna óvissu um hvort danski þingforsetinn kæmist á hátíðarfundinn eður ei.

„Það er fullt af aðilum sem hefðu getað komið til greina. Þarna er nefndur einn möguleiki,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is. Þá segir að hann að þó að skýringar Steingríms séu teknar trúanlegar hefði hann átt að upplýsa forsætisnefnd um komu Kjærgaard um leið og hún þáði boðið m.a. vegna þess að í millitíðinni hafi farið fram kosningar þar sem nýir flokkar hafi komið inn á þing og nýir aðilar komið inn í forsætisnefnd.

„Ef forseti ætlar að standa vel að málum væri eðlilegt að hann gangi úr skugga um að allir þingflokkar séu sáttir við þetta fyrirkomulag. Að það muni ekki varpa skugga á þessi hátíðarhöld,“ segir Jón Þór og telur að með því að upplýsa ekki um staðfestingu Kjærsgaard þess efnis að hún kæmi á hátíðarfundinn hafi forseti Alþingis hlunnfarið forsætisnefndina.

Jón Þór var viðstaddur sumarfund forsætisnefndar í ágúst í fyrra og var viðstaddur fundinn þar sem drögin að dagskrá hátíðarfundarins voru samþykkt. Hann gerði hvorki athugasemd við dagskrána á þeim tíma né á þriðjudaginn síðastliðinn þegar farið var yfir dagskrá hátíðarfundarins í forsætisnefnd.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir forseta Alþingis harðlega.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir forseta Alþingis harðlega. mbl.is/Hari

Engin leyndarhyggja vegna komu Kjærsgaard

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, er í forsætisnefnd Alþingis og var áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd í ágúst í fyrra og var því á sumarfundinum þar sem drögin að dagskránni voru samþykkt. Hann tekur fyrir að leynd hafi ríkt yfir komu Kjærsgaard á hátíðarfundinn.

„Það var ekki með neinum hætti þannig að forseti Alþingis væri að draga úr því hver þetta væri. Það var aldrei þannig að hann væri að draga úr því eða halda því til hliðar hver persónan væri,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

„Einhvern veginn varð það nú þannig að þingmenn og fulltrúar í forsætisnefnd voru ekki mjög uppteknir af þessum undirbúningi. Þetta féll í skaut forseta þingsins og hans nánustu samstarfsmanna að undirbúa hátíðina,“ bætir Guðjón við.

Sýndarmennska í Pírötum

Jón Þór kannast ekki við að nafn Kjærsgaard hafi borið á góma á fundum forsætisnefndar nema á sumarfundinum í ágúst og svo núna á þriðjudag. Steingrímur og aðrir í  forsætisnefnd segja þó að aðkoma Kjærsgaard hafi verið rædd og að hún hefði átt að vera öllum ljós. Aðkoma Kjærsgaard var tilkynnt opinberlega 20. apríl á vef Alþingis í framhaldi af heimsókn forsætisnefndar Alþingis í danska þjóðþingið. Jón Þór fór ekki með í þá heimsókn. 

Í svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn mbl.is segir þó að boðskort hafi verið send erlendum gestum 14. febrúar 2018.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er í forsætisnefnd segist hafa vitað af væntanlegri komu Kjærsgaard í einhverja mánuði og segir hana hafa verið nafngreinda á fundi forsætisnefndar.

„Ég held að öllum hafi verið ljóst í nefndinni nema Jóni hver væri forseti danska þingsins,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, og Þórunn Egilsdóttir sem sitja í forsætisnefnd taka undir að það hafi verið löngu vitað að Kjærsgaard væri væntanleg til landsins.

„Það er alveg ljóst að menn vissu að þetta væri að gerast. Eins og Steingrímur hefur sagt, það var búið að kynna þetta ótaloft fyrir löngu síðan og að hlaupa núna til handa og fóta og fara að hundsa það sem fulltrúi Dana er að gera hér er hrein tækifærismennska og sýndarmennska,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, situr í forsætisnefnd og segist í samtali við mbl.is ekki minnast þess að Pia Kjærsgaard hafi verið nefnd á nafn á fundi forsætisnefndar en man þó eftir umræðu þar sem rætt var um að bjóða forsetum annarra þjóðþinga til hátíðarfundarins.

Hefðu ekki gert athugasemdir

Af þeim þingmönnum sem sitja í forsætisnefnd telur enginn þeirra að þeir hefðu gert athugasemd við aðkomu Kjærsgaard, lítandi til baka, nema Jón Þór Ólafsson. Flestir eru þeir sammála um að það eigi ekki að blanda pólitísku skoðunum Kjærsgaard í málið enda hafi hún komið til hátíðarfundarins í krafti embættis síns sem forseti danska þjóðþingsins en ekki stjórnmálamaður.

„Danska þingið valdi hana til starfsins og við eigum ekki að vera að segja danska þinginu eða einhverjum öðrum fyrir verkum. Mér finnst satt að segja að ef við ætlum að fara gera athugasemdir við einstaka persónur sem koma hingað til Íslands í opinberum erindagjörðum þá held ég að þetta ágæta fólk sem að er búið að hafa sig mest í frammi núna, það ætti hreinlega að gefa út lista yfir hina óæskilegu,“ segir Þorsteinn Sæmundsson.

 „Aldrei dottið það í hug. Ég er ekki að fá einstaklinginn, ég er að fá forseta þingsins,“ segir Brynjar Níelsson, spurður hvort hann hefði gert athugasemd við komu Kjærsgaard ef hann hefði vitað af ósætti vegna komu hennar.

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, situr einnig í forsætisnefnd og segir að það hefði ekki komið til greina að gera athugasemd við aðkomu Kjærsgaard.

„Nei það hefði ég ekki gert. Ég ber virðingu fyrir Dönum og ég ber virðingu fyrir forseta danska þingsins, hvað sem hann heitir. Ég er ekki að hugsa um skoðanir hennar að neinu leyti,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Þórunn Egilsdóttir segir Kjærsgaard lýðræðislega kjörna og að hún hefði komið til Íslands sem fulltrúi danska þingsins. „Hverjir þeirra fulltrúar eru höfum við ekkert með að gera,“ segir Þórunn.

Hefðu viljað vandaðri umræðu

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, á sæti í forsætisnefnd og telur að skortur hafi verið á vandaðri umræðu fyrr í ferlinu um komu Kjærsgaard. Guðjón S. Brjánsson og Bryndís Haraldsdóttir taka bæði undir það sjónarmið.

„Já ef maður hefði staðið vaktina þá hefði maður auðvitað átt að gera það þegar þetta er staðfest í apríl. Þegar það er staðfest að hún komi þá áttum við auðvitað að taka umræðuna,“ segir Guðjón.

 „Ég er ekki viss um það [að hún hefði gert athugasemd] en ég viðurkenni að það hefði verið betra ef þessi umræða hefði átt sér stað fyrr. En ég lít náttúrulega þannig á að við vorum að tala um embætti forseta þings en ekki viðkomandi einstakling eða pólitískar skoðanir sem hún kunni að hafa,“ segir Bryndís.

Guðjón S. Brjánsson.
Guðjón S. Brjánsson. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Aðkoma Kjærsgaard skuggi á fullveldisafmæli Íslendinga

Öfugt við félaga sína í forsætisnefnd telur Jón Þór Ólafsson að það hafi verið mistök að fá Kjærsgaard til að ávarpa Alþingi. Hann hefði „að sjálfsögðu“ gert athugasemd við komu hennar ef hann hefði áttað sig á því hver hún væri fyrr.

„Þegar umdeild manneskja er komin fyrst erlendra fulltrúa til þess að halda erindi á 100 ára fullveldisafmæli Íslendinga og mun þar af leiðandi klárlega varpa skugga á þá samkomu, af því þetta átti að vera samkoma samstöðu en ekki sundrungar, þá að sjálfsögðu hljóta allir að sjá að þetta myndi skyggja á samkomuna vegna mikillar óánægju margra með að hún væri að ávarpa Alþingi á þessum tímamótum,“ segir Jón Þór ósáttur að lokum.

Jón Þór hefur sent fyrirspurn á Steingrím vegna málsins þar sem hann krefst skýrra svara frá Steingrími. Í samtali við mbl.is segist Steingrímur ætla svara Jóni Þór fljótlega.

Mbl.is leitaði eftir viðtali við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, um hátíðarhöldin á Þingvöllum og komu Piu Kjærsgaard af því tilefni hingað til lands. Katrín sagðist ekki ætla að veita fjölmiðlum viðtöl um málið.

Fyrirspurn Jóns Þórs.
Fyrirspurn Jóns Þórs. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert