„Við erum sáttar“

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. mbl.is/Hari

„Já, við erum sáttar við þetta. Við teljum að við hefðum ekki komist lengra að sinni,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is en yfirvinnubanni ljósmæðra hefur verið aflýst vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara.    

„Það var kynntur möguleiki á miðlunartillögu fyrir tveimur dögum, sem byggði á þeim samningi sem í rauninni var felldur í júní síðastliðnum. Okkur þótti það ekki nóg, enda var það það sem hafði verið boðið áður.

Nú hefur komið til yfirlýsing frá Landspítalanum að þeir hafi samþykkt að endurskoða og endurmeta starfslýsingar og ábyrgð ljósmæðra og taka inn í það jafnlaunavottunina sem átti eftir að meta til tekna, og endurskoða þar með laun á stofnuninni. Landspítalinn er langstærsti vinnustaður ljósmæðra og það telur ansi mikið í stóra samhenginu að það sé komið inn,“ segir Katrín.

Þá verður úttekt á störfum ljósmæðra samanborið við aðrar stéttir vísað í gerðardóm og með því sé komin meiri trygging inn í myndina fyrir ljósmæður.

„Svo fara okkar kröfur um það að það verði gerð úttekt á okkar störfum með tilliti til ábyrgðar og menntunar samanborið við aðrar stéttir sem eru með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi að launaröðunin verður borin saman, því er vísað í gerðardóm. Þetta er það sem við höfum samþykkt, og þar af leiðandi aflýsum verkfalli hér og nú,“ segir Katrín, að vonum glöð með niðurstöðu dagsins.

„Nú má sólin fara að brjótast fram. Það er það eina sem er eftir,“ segir Katrín að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert