Alvarlega særður eftir hnífstungu

Sjúkrahúsið Akranesi.
Sjúkrahúsið Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Karlmaður er alvarlega særður eftir hnífstungu á Akranesi í nótt. Að sögn yfirlögregluþjóns var maðurinn fluttur á Landspítalann í nótt en er kominn úr lífshættu. 

Að sögn Jóns S. Ólafssonar yfirlögregluþjóns barst lögreglunni tilkynning frá sjúkrahúsinu á Akranesi í nótt þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem þar var og lét ófriðlega. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist maðurinn hafa stungið af eftir að hafa valdið einhverjum skemmdum. Lögreglan hóf þegar að leita mannsins á sjúkrahúsinu en áður en þeirri leit lauk hafði maður samband við lögreglu og tilkynnti um að verið væri að ráðast á hann. Þegar lögreglan kom á vettvang reyndist maðurinn, sem hafði tilkynnt um árásina, hafa stungið árásarmanninn. 

Hann játaði að hafa stungið manninn en ekki hefur verið hægt að yfirheyra þann sem varð fyrir hnífstungunni. Sá var í mjög annarlegu ástandi þegar starfsfólk sjúkrahússins óskaði eftir aðstoð lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka