Endurveki forkaupsrétt sveitarfélaga

Fossgerði veiðihús við Selá í Vopnafirði.
Fossgerði veiðihús við Selá í Vopnafirði. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Það er ekki nýtt að efnamenn beri víurnar í laxveiðihlunnindi. Það er kannski nýtt að erlendur auðmaður geri það í svona stórum stíl. Ég hef eðlilega áhyggjur eins og margir aðrir,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis, inntur eftir viðbrögðum við úttekt Morgunblaðsins á eignarhaldi Jim Ratcliffe, bresks kaupsýslumanns, á jörðum á Íslandi, einkum í Vopnafirði.

„Það er búið að tala mikið um þetta síðustu tíu til fimmtán ár, en það hefur ekki orðið af því að gripið sé til aðgerða. Staðreyndin er sú að jarða- og ábúðarlögin eru í dag ónýtari en nokkru sinni fyrr. Sem dæmi má nefna að forkaupsréttur sveitarfélaga á jörðum sé ekki lengur í lögum. Hann er ákveðin bremsa,“ segir hann, en forkaupsréttur var numinn úr lögum árið 2004.

„Mér finnst að ríki og sérstaklega sveitarfélög eigi að hafa sterkan forkaupsréttarmöguleika. Í þágu almannahagsmuna finnst mér það eðlilegt, sem liður í því að takast á við þessi mál,“ segir Steingrímur.

Gert með skipulögðum hætti

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, væntir niðurstöðu starfshóps um endurskoðun á eignarhaldi á bújörðum í ágúst. Hann segir það koma á óvart hve skipulögð uppkaup jarða í Vopnafirði séu. „Það er ljóst að það er ákveðið skipulag í gangi í uppkaupum á þessu svæði. Þetta er umhugsunarefni og tengist greinilega kaupum á landi með hlunnindum tengdum laxveiðiám,“ segir hann.

Málið hefur verið rætt í ríkisstjórn enda snertir það málefnasvið nokkurra ráðuneyta. „Það er augljóst í mínum huga að við þurfum að átta okkur á því hvaða vandkvæði þessi þróun kann að hafa skapað á sumum svæðum,“ segir Kristján.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert