„Það eru allir að hugsa þetta hver í sínu horni,“ segir Edda Guðrún Kristinsdóttir, ljósmóðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK). Þær ljósmæður sem hafa sagt upp störfum sínum að undanförnu á Akureyri hafa ekki dregið uppsagnir sínar tilbaka. Sömu sögu er að segja um ljósmæður á Landsspítalanum eftir því sem fram kemur á vef Ríkisútvarpsins.
Atkvæðagreiðsla ljósmæðra um miðlunartillögu ríkissáttasemjara hófst í dag og mun standa fram á miðvikudag. Tillagan felur í sér úrskurð gerðardóms um það hvort að launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfsins og þar að auki sambærilegar hækkanir á grunnlaunum og samningurinn sem ljósmæður felldu í júní kveður á um. Þær ljósmæður sem þegar hafa hætt störfum eru ekki kjörgengar í atkvæðagreiðslunni.
Þær ljósmæður sem blaðamaður mbl.is ræddi við og hafa nú þegar látið af störfum eða sagt upp, vildu lítið segja að svo stöddu. Þær segjast þó ekki vera búnar að ákveða sig hvort að miðlunartillagan sem nú er kosið um komi til með að breyta afstöðu sinni. Bíða þurfi niðurstöðu kosninga og þá ennfremur úrskurðar gerðardóms, fari svo að tillagan verði samþykkt.