Lögreglan lokaði Hótel Adam í dag

Hótel Adam við Skólavörðustíg.
Hótel Adam við Skólavörðustíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsemi Hótels Adam var stöðvuð af lögreglunni síðdegis í dag. Þetta staðfestir Sigurbjörn Jónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Eigandi hótelsins hafði ekki virt 48 klukkustunda frest sem honum var gefinn til þess að rýma hótelið og voru enn gestir á svæðinu þegar lögreglu bar að.

Gestirnir fengu frest til klukkan ellefu í fyrramálið til þess að koma sér út. Umsókn hótelsins um rekstrarleyfi hafði verið synjað, en að sögn Sigurbjörns leiddi eitt af öðru. Innsigli lögreglu á nokkrum herbergjum hafði verið rofið og leikur grunur á að þau hafi verið notuð í leyfisleysi. Þá höfðu slökkvilið og heilbrigðiseftirlit gert athugasemdir við reksturinn.

Vísir greindi fyrst frá því að hótelinu hefði verið lokað, en samkvæmt heimildum Vísis rann rekstrarleyfi Hótels Adam út 11. nóvember í fyrra. Hótelið komst fyrst í fjölmiðla 2016 fyrir að selja kranavatn í flöskum. Á síðasta ári var R. Guðmundssyni ehf., sem sér um rekstur hótelsins, gert að greiða fyrrverandi starfsmanni 2,3 milljónir í vangoldin laun. Þá fór Íslandsbanki fram á að húsnæðið yrði sett á nauðungarsölu í maí á þessu ári vegna skulda upp á 25 milljónir króna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka