Vissu ekki af veikindum Dags

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn fréttu fyrst af veikindum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í Fréttablaðinu á laugardagsmorgun, en þar er greint frá því að Dagur glími við sjaldgæfan gigtarsjúkdóm. Komu fregnirnar borgarfulltrúum verulega á óvart, segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið, aðspurður hvenær borgarfulltrúar hafi fyrst vitað af veikindum Dags.

Lögð var fram bókun á borgarráðsfundi síðasta fimmtudag frá fulltrúum minnihlutans sem lýstu yfir óánægju sinni með fjarveru borgarstjóra á fundinum vegna sumarleyfa. Eyþór sagði aðspurður að bókunin hefði vitanlega ekki verið lögð fram ef flokkarnir hefðu vitað af veikindum Dags. „Við óskum honum að sjálfsögðu góðs bata og að meðferðin gangi vel,“ segir Eyþór.

Bókun minnihlutans 

„Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokk fólksins:

Stjórnarandstaðan telur það óásættanlegt að borgarstjóri skuli vera fjarverandi vegna sumarleyfis á síðasta reglulega fundi borgarráðs fyrir sumarfrí ráðsins. Það er sérstaklega ámælisvert í ljósi þeirra alvarlegu mála sem upp hafa komið síðustu daga, sem brýnt er að fjallað sé um áður en borgarráð fer í sumarfrí. Þannig er ekki ásættanlegt að borgarstjóri sendi staðgengil fyrir sig á fundinn. Þessi mál sem um ræðir eru eftirfarandi: álit umboðsmanns Alþingis um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra, dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmt hefur Reykjavíkurborg til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna slæmrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og úrskurður kærunefndar jafnréttismála vegna brots Reykjavíkurborgar gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu borgarlögmanns í ágúst árið 2017.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert