Bændur bíða Norðmanna

Slegið í Hvítárholti. Það er helst á Suðurlandi að sláttur …
Slegið í Hvítárholti. Það er helst á Suðurlandi að sláttur gangi illa vegna bleytu en Sigurgeir segir bændur eiga birgðir. Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson

Enn bíða íslenskir bændur þess að norska matvælastofnunin setji skilyrði um heyútflutning til landsins. Það ræðst af kröfum Norðmanna hversu mikið hey verður hægt að flytja úr landi en að sögn Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna, hleypur fjöldi rúlla á tugum þúsunda.

Sigurgeir Hreinsson er framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Hann segir mikið liggja á að kröfur Norðmanna berist sem allra fyrst. Gras er jafnan slegið tvisvar á ári en þar sem heybirgðir eru jafngóðar nú og raun ber vitni velti bændur fyrir sér hvort þeir eigi að hafa fyrir því að bera á tún fyrir seinni slátt, ef þeir geta ekki selt heyið. Þeir þurfi ekki sjálfir á því að halda. „Þeir gera jafnvel ráð fyrir að henda því,“ segir Sigurgeir og bætir við að hann þori ekki að lofa bændum að af útflutningi verði.

Vilja ekki gras í beit

Ekkert formlegt ferli virðist vera fyrir heyflutning milli Íslands og Noregs en jafnan hlaupa Danir og Svíar undir bagga með norskum bændum þegar á þarf að halda. Það er þó ekki í boði núna enda sömu þurrkar í nágrannalöndunum og í Noregi, ef ekki verri.

Sigurgeir Hreinsson segir liggja á að Norðmenn setji sín skilyrði …
Sigurgeir Hreinsson segir liggja á að Norðmenn setji sín skilyrði fram. Benjamín Baldursson

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að algeng skilyrði við heyflutning milli landa séu að hey verði að koma af friðuðum túnum, þ.e. túnum sem ekki hafa verið í beit, og að búfjáráburður hafi ekki verið notaður á túnin.

Norðmenn gera þá kröfu um heyflutning frá Evrópusambandinu að túnið hafi ekki verið í beit á þessu ári, en fyrir lönd utan ESB er krafan tvö ár. Sigurgeir segist þó vonast til að Ísland verði sett í flokk með Evrópusambandslöndunum enda sé sjúkdómastaða á Íslandi síst verri en í mörgum ríkjum Evrópu. Þar sem Ísland er utan plöntusjúkdómalöggjafar ESB flækist málið.

Verð á heyrúllu ræðst af ýmsum þáttum, svo sem stærð, áburðarnotkun o.fl. Algengt verð fyrir rúllu á Íslandi er þó um 7.000-8.000 krónur, en þá er miðað við að rúllan sé sótt heim að bæ og ljóst að verðið verður töluvert hærra með flutningi úr landi.

MAST veit lítið

Fulltrúar Matvælastofnunar á Íslandi hafa rætt við norska kollega sína og hafa Norðmenn fengið upplýsingar um sjúkdómastöðu á Íslandi. Þetta segir Þorvaldur H. Þórðarson, bóndi og framkvæmdastjóri markaðsstofu Matvælastofnunar. Hann hefur komið að útflutningi matvæla til ýmissa ríkja, meðal annars Kína, Víetnams, Rússlands, Bandaríkjanna og er nú tengiliður norsku og íslensku matvælastofnananna.

Hann segist engar upplýsingar hafa um skilyrði Norðmanna. Þau verði að koma í ljós. Engin tímaáætlun sé í gangi, en aðspurður segist hann skynja að Norðmönnum liggi á.

Norðmenn vilja ekki gras af túnum sem hafa verið í …
Norðmenn vilja ekki gras af túnum sem hafa verið í beit. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert