Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) ákvað í dag að vísa formanni SÍF, Davíð Snæ Jónssyni, úr stjórn vegna ummæla í greininni „Pólitísk slagsíða í kennslustofunni“ sem birt var 19. júlí síðastliðinn í Fréttablaðinu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en þar er bent á að framkvæmdastjórn SÍF hafði neitað Davíð um að birta greinina.
Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að samkvæmt samþykkt framkvæmdastjórnar á fundi 17. janúar síðastliðinn krefst það samþykkis stjórnar að birta grein í nafni SÍF og að undirritun sem stjórnarmeðlimur SÍF dugi til að ummæli séu í nafni SÍF.
„Davíð Snær hefur ítrekað virt þessa samþykkt stjórnar að vettugi í greinaskrifum sínum, en síðan 17. janúar hefur hann aldrei fengið samþykki stjórnar til þess að birta grein undirritaða sem formaður félagsins. Því ber SÍF enga ábyrgð á innihaldi þeirra,“ segir í tilkynningunni.
„Í greininni talar Davíð Snær gegn samþykktri stefnu SÍF, en samkvæmt 5. og 17. grein laga SÍF ber framkvæmdastjórn að starfa samkvæmt stefnuskrá sambandsstjórnar. Ummæli greinarinnar vinna gegn tilgangi, markmiðum og stefnu SÍF og eru þar af leiðandi brot á lögum félagsins, vinnureglum stjórnar og siðareglum,“ kemur einnig fram í tilkynningunni.
Eftir birtingu greinarinnar voru samskiptaörðugleikar og meirihluti stjórnar gaf Davíð kost á því að segja af sér. Þess í stað boðaði hann til fundar tæpri viku síðar.
„En meirihluti framkvæmdastjórnar fordæmir þau brot á lögum og reglum SÍF og kærir sig ekki um að starfa lengur undir hans formennsku. Því hefur Davíð Snæ verið vísað úr framkvæmdastjórn á grundvelli 32. greinar laga SÍF.“