Verjandi Vals Lýðssonar, sem er ákærður fyrir að hafa drepið bróður sinn á bænum Gýgjarhóli 2 í Bláskógabyggð aðfaranótt laugardagsins 31. mars, segir að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að hann hafi orðið honum að bana af ásettu ráði.
Þetta kemur fram í greinagerð verjanda Vals sem fjallað var um í kvöldfréttum RÚV. Þess er krafist að Valur verði sýknaður af manndrápsákæru eða sakfelldur fyrir líkamsárás.
Valur hringdi sjálfur á lögreglu og tilkynnti um að bróðir hans væri liggjandi í blóði sínu á gólfinu. Í greinagerðinni segir að ekki hafi verið hægt að sanna ásetning Vals en hann hafi mögulega ruglast á bróður sínum og innbrotsþjófi í ölæði.
Lögfræðingur Vals segir að ákæruvaldið byggi ákæruna að miklu leyti á símtali Vals í Neyðarlínuna, þar sem hann virðist játa. Ekki sé hægt að gera það enda hafi Vali verið brugðið og hann verið í annarlegu ástandi.
Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara sló Valur bróður sinn ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama, auk þess að sparka og/eða trampa ítrekað á höfði hans og líkama. Af þessu hlaut Ragnar margvíslega dreifða áverka á líkama og höfði.
Ragnar hlaut alvarlegan höggáverka ofarlega vinstra megin á enni, sem olli sári á hörundi, blæðingu innan í höfuðkúpu og snöggri breytingu á meðvitundarstigi. Af höggáverkanum hlutust einnig ógleði, svimi og uppköst.
Þetta leiddi til þess að Ragnar lést af banvænni innöndun magainnihalds.