„Ég veit ekki til annars en að það sé almenn ánægja með þessar aðgerðir,“ segir Erla Þórdís Traustadóttir, markaðsfulltrúi hjá Skálholtsstað, um staðfestingu kirkjuráðs þar sem heimilað var að hefja gjaldtöku af bifreiðum sem eiga viðkomu á Skálholtsstað. Gjaldtakan mun hefjast í september og er að sögn Erlu liður í því að auka þjónustustigið á svæðinu.
Meðal þess sem innifalið er í gjaldinu er miði á safnið í Skálholti auk aðgangs að salerni. Verð fyrir 30 manna rútu er 3.000 krónur, en minni hópferðabílar munu greiða 1.500 krónur. Verð fyrir fólksbifreiðar er enn óákveðið.
Þrátt fyrir að ferðaþjónustufyrirtækjum hafi hingað til verið frjálst að leggja á svæðinu hefur Skálholtsstaður verið með samning við Gray Line undanfarin ár. „Þeir hafa alltaf borgað hjá okkur því þeim hefur þótt það sanngjarnt. Þeir munu síðan núna vera hluti af þessari gjaldtöku sem er að hefjast og greiða sama verð og aðrir,“ segir Erla.