Kvarta síður undan ofnæmi í vætutíð

Frjókorn í andrúmslofti hafa truflað Reykvíkinga minna í sumar heldur …
Frjókorn í andrúmslofti hafa truflað Reykvíkinga minna í sumar heldur en síðustu ár. Er það mikið til vætutíð að þakka. mbl.is/Brynjar Gauti

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa kvartað minna undan frjókornaofnæmi það sem af er sumri en síðustu ár samkvæmt upplýsingum frá ofnæmislækni. Hann segir að frjókornin trufli ofnæmissjúklinga helst þegar sólin láti sjá sig og veður haldist þurrt, sem verði að teljast til undantekninga þetta sumarið í borginni. Því séu það helst Reykvíkingar með frjókornaofnæmi sem fagni vætutíðinni. 

Samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar var markverður munur á birkifrjó í lofti milli landshluta í maí og í byrjun júní, en á Akureyri mældist birkifrjó í lofti mest um 110 rúmmetrar á meðan það mældist mest aðeins um 10 rúmmetrar í Reykjavík. Telst það óvenju lítið frjó í Reykjavík miðað við árstíma að því er segir á vef Náttúrufræðistofnunar. Þá mældist grasfrjó öllu jafnara í Reykjavík og á Akureyri. 

Vægt sumar fyrir ofnæmissjúklinga 

Davíð Gíslason, ofnæmislæknir í Læknasetrinu, segir að færri tilfelli frjókornaofnæmis hafi borið inn á borð ofnæmislækna nú í ár en á sama tíma í fyrra. „Við höfum ekki fundið fyrir mörgum heimsóknum tengdum frjókornaofnæmi og ég held að það hafi verið mikið minna hringt út af einkennum ofnæmis núna heldur en var í fyrra,“ segir Davíð. 

„Á heildina litið hefur þetta verið mjög vægt sumar fyrir ofnæmissjúklinga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Davíð en bendir jafnframt á að birkifrjó, önnur algengasta tegund frjókorna með grasfrjói, sé mest megnis að finna fyrir norðan. 

„Birkifrjóið er mikið fyrir norðan en lítið hér, svo þeir hafa fundið fyrir því fyrir þar. Það eru þó mun færri sem eru með ofnæmi fyrir birki og þeir eru þá flestir með ofnæmi fyrir grasi einnig. Svoleiðis að þó það sé mikið magn af birkifrjó þá veldur það ekki eins miklum óþægindum eins og grasið og svo stendur það mikið styttra,“ segir Davíð. 

Allt að 20% minnkun í sölu á ofnæmislyfjum

Þórbergur Egilsson, forstöðumaður rekstrarsviðs hjá Lyfju, segir að helst megi sjá minnkun í sölu á ofnæmistengdum lyfjum á höfuðborgarsvæðinu milli ára. „Í maí og júní í ár var um 6% minnkun á heildina [í sölu á ofnæmislyfjum] og í einstaka pakkningum var allt að 20% minnkun,“ segir Þórbergur. 

Hann segir að ekki sé sama minnkun í sölu á ofnæmislyfjum á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert