Mannbjörg er eldur kom upp í báti

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði er á leið á vettvang.
Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði er á leið á vettvang. Ljósmynd/Ólafur Bernódusson

Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í strandveiðibáti um átta sjómílur norður af Kögri á Vestfjörðum í morgun. Skipstjóri bátsins hafði samband við Landhelgisgæsluna um klukkan 9.40 og tilkynnti að kviknað hefði í bátnum.

Að sögn Halldórs Óla Hjálmarssonar hjá svæðisstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæði 7, verður björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði komið að flakinu, sem er um 10 sjómílur norður af Straumnesi, fyrir hádegi og kemur ekki í ljós hvort hægt verður að draga það í land fyrr en þangað er komið. Talið er að báturinn sé gjörónýtur. 

Nærstaddir bátar voru beðnir um að halda þegar á staðinn auk þess sem björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kölluð út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.  

Skömmu síðar var skipverji bátsins, sem var einn um borð, kominn í björgunarbát en á þeirri stundu varð strandveiðibáturinn alelda. Klukkan 10.00 var búið að bjarga manninum um borð í annan strandveiðibát.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert