Moka þarf upp jarðvegi á slysstað

Jeppi og flutningabíll lentu í árekstri. Langar raðir bíla hafa …
Jeppi og flutningabíll lentu í árekstri. Langar raðir bíla hafa myndast á Suðurlandsvegi. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur að olíuhreinsun á vettvangi áreksturs stórrar vörubifreiðar og jeppa við vegamót Suðurlandsvegar og Hafravatnsvegar. Vinnuvélar verða kallaðar út í dag til að moka upp jarðvegi og skipta honum út vegna olíulekans, en slysið varð á vatnsverndarsvæði.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu lak talsvert magn olíu úr vörubílnum og ekki er vitað hve langan tíma hreinsunarstarf mun taka. Miklar umferðartafir eru á Suðurlandsvegi vegna slyssins.

Lögregla ákvað fyrr í dag að færa lokanir á veginum austur svo að um­ferð geti farið þá leið í átt að Reykjavík og svo að hring­torg­inu við Norðlinga­vað svo um­ferð geti þá farið til baka og valið þá aðra leið aust­ur fyr­ir fjall.  

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að umferð hafi verið beint um Bláfjallaveg en þar gangi hún mjög hægt og því hafi sumir valið að fara um Suðurstrandarveg.

Talsverð olía lak úr vörubílnum á veginn.
Talsverð olía lak úr vörubílnum á veginn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert