Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í strandveiðibátnum Sólu GK-36 um átta sjómílur norður af Kögri á Vestfjörðum í gærmorgun.
Skipstjóri bátsins, Reynir Gunnarsson, var einn í bátnum á handfæraveiðum og hafði samband við Landhelgisgæsluna um klukkan 9.40 og tilkynnti að kviknað hefði í bátnum.
Að sögn Halldórs Óla Hjálmarssonar, hjá svæðisstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæði 7, fór björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði að flakinu, en þá hafði Reynir náð að koma sér í gúmmíbjörgunarbát. Honum hafði verið bjargað þaðan um borð í strandveiðibátinn Smára ÍS-144 sem hafði verið á handfæraveiðum um eina sjómílu frá slysstaðnum, en nærstaddir bátar voru beðnir um að halda þegar á staðinn. Auk þess voru björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar kölluð út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Að sögn Reynis var báturinn orðinn alelda áður en björgunarskipið kom og sökk þegar tilraun var gerð til að reyna að slökkva í flakinu. Hann kveðst telja, í samtali við Morgunblaðið, að eldurinn hafi kviknað í stýrishúsi bátsins, en lítill tími hafi gefist til að hugsa því eldurinn hafi breiðst hratt út. Ekki gafst tími til að klæða sig í flotgalla, en honum tókst að losa og komast í gúmmíbjörgunarbátinn þar sem hann náði að hringja úr farsíma sem hann hafði haft í brjóstvasanum.