Mannanafnanefnd veitti Sæmundi Pálssyni, fyrrverandi lögregluþjóni og best þekktum sem lífverði Bobby Fischer, nýlega heimild til þess að breyta nafni sínu í Sæmi Rokk, eins og hann hefur verið kallaður síðan á unglingsárum þegar hann vakti athygli sem rokkdansari.
Nafnið Sæmi fékk samþykki nefndarinnar fyrir nokkrum árum og nú í vetur, þegar Sæmi sótti um Rokk sem aukanafn, þar sem það uppfyllti öll skilyrði og reglur varðandi málhefð og beygingarreglur íslenskrar tungu, varð nefndin við beiðni hans þar um.
„Mannanafnanefnd samþykkti umsóknina og ég er alsæll,“ segir Sæmi Rokk. Hann hét lengst Sæmundur og er Pálsson en nú hefur breyting orðið. Í kringum áttræðisafmælið fyrir tveimur árum lét hann að áeggjan góðra vina á reyna hvort breyta mætti nafni sínu. Fyrir lá úrskurður mannanafnanefndar frá 2014 sem heimilaði nafnið Sæmi. Þar með var málið hálfnað.
Við yfirferð nefndarinnar síðasta haust reyndist ekkert því til fyrirstöðu að heimila nafnið Rokk, enda félli það að íslenskri málhefð og beygingarreglum sem er frumskilyrði samþykktar og skráningar í mannanafnaskrá. Niðurstaða: Sæmi Rokk Pálsson.
En fyrst örlítið um manninn. Fyrir sextíu árum eða svo, þegar rokktónlistin fór að hljóma, sté Sæmi sporin svo aðdáun vakti. Dansparið Sæmi rokk og Didda, Jónína Karlsdóttir, voru stjörnur síns tíma. Þá fór orð af því að þegar lögregluþjónninn Sæmi mætti á vettvang hefði lauflétt danssýning með nokkrum rokkskrefum stundum gjörbreytt andrúmsloftinu og róað mannskapinn. Þá sést Sæma bregða fyrir í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu hvar hann hét reyndar Óliver Tvist sem sagðist tvista til þess að gleyma.
Þessu til viðbótar er Sæmi byggingameistari að hundruðum húsa á höfuðborgarsvæðinu en þó best þekktur sem fylgdarmaður og lífvörður skáksnillingsins Bobby Fischer í heimsmeistaraeinvíginu í skák árið 1972. Þá myndaðist með þeim vinátta sem lengi varði. Átti Sæmi mikinn þátt í því að frelsa Fischer úr fangelsi í Japan en forsenda þess var íslenskur ríkisborgararéttur.
„Já, fólk var alltaf að stinga að mér að ég ætti að láta breyta nafninu enda þekkja mig flestir sem Sæma Rokk,“ segir hann. „Þegar til kom reyndist þetta ekki vera neitt mál og það var gaman að fá jákvætt bréf frá mannanafnanefnd. Nú fer þessi breyting inn í Þjóðskrána og þá breytist nafnið í öllum formlegum pappírum. Raunar hafa margir í minni fjölskyldu látið breyta nafninu sínu, svo sem dætur mínar tvær; Sigríður bætti við nafninu Arna, Hildur heitir nú Vera að millinafni og Júlía dóttir hennar setti til viðbótar inn nafnið Hera.“
Sæmi verður 82 ára eftir nokkra daga og er enn í fullu fjöri. Dansar, spilar bridds og golf og fer í sund. Á næstunni eru þau Ásgerður Ásgeirsdóttir kona hans svo á leiðinni til Alicante á Spáni.