Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurðað Sindra Þór Stefánsson og tvo meinta samverkamenn hans í áframhaldandi farbann til 24. ágúst nk. Lögreglan á Suðurnesjum gefur ekki upp hve margir eru ákærðir í málinu.
Ákært er fyrir stórfellt þjófnaðarbrot auk þess sem sumir eru ákærðir fyrir að halda eftir upplýsingum. Varðar málið stuld á 600 tölvum að andvirði 200 milljóna íslenskra króna úr gagnaverum í desember og janúar og alls hafa 23 verið handteknir og yfirheyrðir vegna málsins. Fimm hafa sætt gæsluvarðhaldi.
Tölvubúnaðurinn er enn ófundinn og málið tók óvænta stefnu þegar Sindri Þór, sem sætti gæsluvarðhaldi, flúði af Sogni og til Amsterdam í Hollandi þar sem hann var handtekinn nokkrum dögum síðar. Hann hefur sætt farbanni síðan þá.