Grunar að konum hafi verið byrluð ólyfjan

Jónas segist ekki vita til þess að svipuð mál hafi …
Jónas segist ekki vita til þess að svipuð mál hafi komið upp á Eistnaflugi áður. Ljósmynd/Gaui H

Lögreglan á Austurlandi rannsakar nú mál þar sem grunur leikur á að tveimur konum hafi verið byrluð ólyfjan helgina sem tónlistarhátíðin Eistnaflug fór fram í Neskaupstað. Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir í samtali við mbl.is að lögregla hafi engan grunaðan enn þá.

Á vef Austurfréttar kemur fram að konurnar hafi báðar leitað aðstoðar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað og önnur þeirra verið lögð inn. Báðar báru þær fyrir sig minnis- og máttleysi auk þess sem önnur þeirra mun hafa verið með lágan blóðþrýsting og blóðsprungin augu.

Jónas segist ekki vita til þess að svipuð mál hafi komið upp á Eistnaflugi áður. Hann segir málið erfitt í rannsókn þar sem það hafi ekki komið á þeirra borð strax.

„Það er ósköp lítið hald í öllu, því miður. En þetta er upplifun þeirra og hún passar alveg við margt. En því miður höfum við enga grunaða. Það er ekkert að hafast við enn þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert