Nemendur besta auglýsingin

Gísli Snær Erlingsson.
Gísli Snær Erlingsson.

Gísli Snær Erlingsson tók nýverið við skólastjórataumunum í London Film School, einum elsta kvikmyndaskóla heims. Hann hefur ekki í hyggju að breyta áherslum í skólastarfinu, enda sér hann ekki ástæðu til að breyta því sem virkar vel. Hins vegar sé ýmislegt á döfinni, t.d. stendur til að flytja skólann úr Covent Garden til London City Island og því fylgi mikið umstang og skriffinnska. 

Gísli Snær kveðst vitaskuld fylgjast grannt með námi nemenda, sem skiptist í þrjár annir á ári og felur í sér að þeir búa til fjölda kvikmynda á tveggja ára námstíma og eru flestar um 20 mínútur að lengd. „Um 250 á ári,“ segir hann og er afar hreykinn af útskriftarverkefnum nemenda. Og alveg með tölurnar á hreinu þegar kemur að afrekum þeirra. „Frá því ég hóf störf í hitteðfyrra hafa nemendur sýnt 530 myndir á 431 kvikmyndahátíð og hampað 87 verðlaunum og 55 tilnefningum. Einn fékk meira að segja Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina þetta árið. Í skólanum er mikil áhersla lögð á að styðja vel við bakið á nemendum. Tveir starfsmenn eru í fullri vinnu við að koma myndunum á framfæri á kvikmyndahátíðum og víðar, enda er okkur mikið í mun að nemendur njóti velgengni, þeir eru okkar besta auglýsing.“

Gísli með Walter Murch sem er klippari og hljóðhönnuður og …
Gísli með Walter Murch sem er klippari og hljóðhönnuður og hefur m.a. starfað með Francis Ford Coppola. Ljósmynd/Katie Garner

Spurður hvort nemendur hafi svipaðar hugmyndir um kvikmyndagerð og hann og samnemendur hans í kvikmyndanáminu í París á tíunda áratugnum, segir hann umhverfið hafa gjörbreyst. „Áhugi þeirra beinist í meira mæli að gerð sjónvarpsþátta, enda markaðurinn orðinn miklu meiri fyrir þáttaraðir, sem fólk getur horft á heima í stofu í eins mörgum lotum og það vill. Samhliða þessari þróun hefur orðið æ erfiðara að fjámagna kvikmyndir í fullri lengd. Í gamla skólanum mínum þurftum við nemendurnir að hafa rosalega mikið fyrir því ef okkur langaði að horfa á gamlar bíómyndir eða þætti. Þá var ekkert sem hét „online“ eða frír aðgangur að streymisveitu á borð við MUBI eins og nemendur London Film School hafa. Fyrir vikið eru nemendurnir búnir að sjá ógrynni mynda, miklu fleiri en mín kynslóð, og hafa þróað með sér meiri sjónrænan lesskilning.“ 

Bygging London Film School í Covent Garden.
Bygging London Film School í Covent Garden.

Sjálfur útskrifaðist Gísli Snær frá La Fémis-kvikmyndaskólanum í París 1994. Árið eftir tókst honum að græta stóran hluta íslensku þjóðarinnar með Benjamín dúfu, sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd eftir námið. „Benjamín dúfa á sérstakan stað í hjarta mér, ég get ekki horft á hana án þess að fara allur í keng því ég upplifi svo sterkt hverstu mikið allir sem að henni komu gáfu af sér. Ég segi stundum að það hafi orðið til einhver galdur,“ segir Gísli Snær.

Viðtalið við Gísla má lesa í heild sinni í Sunnudagsmogganum í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert