Tónlistarmaðurinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, vekur í færslu á Facebook athygli á svonefndu „blackface“-gervi húsvískrar hljómsveitar sem kom fram á mærudögum, þar sem þeir JóiPé og Króli komu fram í gær. Spyr Króli hvort fólki finnist þetta í lagi árið 2018.
„Við vorum að fara á svið og fáum þá við að vita að Húsavíkur bæjarband sé að fara að stíga á svið á eftir okkur og þau séu að fara að mála sig í framan til að vera jafndökk í framan og einn í hljómsveitinni,“ segir Króli í samtali við mbl.is. Þeir JóiPé hafi verið þar ásamt annarri hljómsveit og þau hafi velt fyrir sér hvað væri að fara að gerast. „Ég fer þá að kíkja á svæðið,“ bætir hann við og þá hafi hann séð hljómsveitina í „blackface“-gervinu, þ.e. með svartar hárkollur og andlit og hendur máluð svört.
„Ég byrja á að spyrja rólega, en í alvarlegum tón, hvort þau sjá ekkert að þessu. Þá mæta mér hlæjandi svör eins og þau hafi fengið þessa gagnrýni áður og ekkert séð að þessu,“ segir hann.
Í færslu sinni lýsir Króli því síðan hvernig rólegur tónninn í rödd hans hafi fljótt horfið er hann fékk að heyra að hann væri
„bara misskilja“
„Þau væru að heiðra ekki að móðga“
„Þetta væri ekkert niðrandi“
„Það er einn blökkumaður í hljómsveitinni og hann gúdderar þetta“[.]
Og að
„Robert Downey jr hafi líka gert þetta og fólki fannst það í lagi“.“
Það sem hafi þó komið sér mest á óvart hafi verið svarið sem hann fékk er hann spurði hljómsveitina hvort hún væri undir það búin að fá harða gagnrýni, enda væri hún mjög líklega á leiðinni í það á þessum upplýstu tímum.
„Svörin sem ég fékk voru að „fólkið að sunnan“ mætti alveg tala eitthvað á netinu, það skipti þau engu máli, þau myndu bara halda áfram,“ segir Króli í færslu sinni.
„Þetta minnti helst á fáránlega taktlausa steggjun, t.d. eins og sú sem átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur í Druslugöngunni í gær. Sem þau nota bene halda ekki, tilviljun.“
Króli kveðst ekki vilja hljóma þröngsýnn, en sér virðist sem í þessu frekar flotta bæjarfélagi sé létt að „normalísera“ eitthvað sem sé ekki í lagi.
„Þau börn sem alast upp við þetta á Húsavík og sjá The Heffners spila á Mærudögum ár eftir ár vona ég svo innilega að sjái og læri hvað þetta er rangt. Þetta hefur verið að gerast í nokkur ár og þau sögðust stolt ætla [að] vera á þessu sviði að ári í þessu sama rasíska dressi, máluð í andliti. Burt sé[ð] frá þeim hroka sem mætti mér í svörum þessarar hljómsveitar er ég fyrst og fremst gáttaður að þetta sé að gerast á þessu landi árið 2018. Getum við plís ekki látið þetta viðgangast.“
Spurður hvort hann hafi fengið mikil viðbrögð við færslu sinni kveðst hann hafa fengið viðbrögð frá nokkrum Húsvíkingum á samfélagsmiðlum sem sjálfir segjast hafa vakið máls á þessu undanfarin ár.