„Ákaflega þakklát“

Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi.
Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Þetta er mjög spennandi. Ég sóttist eftir starfinu og er ákaflega þakklát fyrir að hafa verið talin hæfust til að gegna því,“ segir Kristín Þórðardóttir. Dómsmálaráðherra hefur nú skipað Kristínu sýslumann á Suðurlandi.

„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég hef náttúrulega fengið að kynnast þessu og hlakka bara til að vinna með öllu þessu góða fólki áfram,“ segir Kristín.

Frá fyrsta maí í fyrra hefur Kristín verið settur sýslumaður og þar áður var hún fulltrúi og staðgengill sýslumanns og lögreglustjóra á Hvolsvelli.

Alls bárust átta umsóknir um embættið sem var auglýst fyrr í vor og skipar dómsmálaráðherra embættið til fimm ára frá og með 1. ágúst.

Þeir aðilar sem sóttu um utan Kristínu voru Andri Björgvin Arnþórsson, Björn Hrafnkelsson, Helgi Jensson, Sigrún Ágústdóttir, Sveinbjörn Rosén Guðlaugsson, Þuríður Árnadóttir og Þuríður Björk Sigurjónsdóttir.

Utan hefðbundinna verkefna sem embætti sýslumanna fara með fer sýslumaðurinn á Suðurlandi með nokkur sérverkefni á landsvísu. Þar má til dæmis nefna útgáfu happdrættisleyfa, útgáfu leyfa til þeirra sem vilja reka útfararþjónustu og útgáfu Lögbirtingablaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert