Bróðir mannsins sem var stunginn á Akranesi fyrir viku síðan er grunaður um verknaðinn. Þetta staðfestir Jón Haukur Hauksson, staðgengill lögreglustjórans á Vesturlandi.
Sá grunaði var úrskurðaður í gæsluvarðhald til næsta fimmtudags.
Að sögn Jóns Hauks hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum vegna þess að ekki er búið að taka skýrslur af lykilvitnum sem komu á staðinn skömmu eftir atburðinn.
Sá sem varð fyrir árásinni er á batavegi og telur Jón Haukur að búið sé að útskrifa hann af Landspítalanum.
Lögreglunni á Akranesi barst tilkynning frá sjúkrahúsinu á Akranesi aðfaranótt 23. júlí um að þar léti maður ófriðlega í mjög annarlegu ástandi. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist hann hafa stungið af og framið skemmdarverk á sjúkrahúsinu.
Síðar hafði maður samband við lögreglu og tilkynnti um að ráðist hefði verið á sig. Þegar lögregla kom á vettvang reyndist maðurinn sem tilkynnti um árásina hafa stungið árásarmanninn, þann sem látið hafði ófriðlega á sjúkrahúsinu. Játaði maðurinn að hafa stungið árásarmann sinn, en hann særðist alvarlega og var fluttur á Landspítalann.