Valgerður Gunnarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík og Lilja Guðný Jóhannesdóttir hefur verið skipuð skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Báðar eru þær skipaðar í embættin til fimm ára, frá og með 1. ágúst 2018. Tvær umsóknir bárust um stöðuna á Húsavík en ein um stöðuna í Verkmenntaskóla Austurlands, sem er í Neskaupstað.
Valgerður lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, námi í kennslu- og uppeldisfræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómanámi í stjórnun og forystu í skólaumhverfi frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Hún hefur starfað sem kennari, námsráðgjafi og deildarstjóri í Framhaldsskólanum á Húsavík og skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Þá sat Valgerður á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 2013-2017 og var formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2016-2017. Hún hefur verið varaþingmaður frá í maí 2018.
Valgerður hefur einnig reynslu af sveitarstjórnarmálum sem bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar. Hún hefur einnig gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, þar á meðal formennsku í Skólameistarafélagi Íslands, setið í stjórn Útgerðarfélagsins Höfða og í stjórn Menningarsjóðs þingeyskra kvenna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Lilja Guðný hefur lokið M.Ed.-námi frá Háskóla Íslands, auk viðbótarnáms í stjórnun og mati menntastofnana frá sama skóla, að því er fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins.
Hún hefur kennslureynslu á grunn- og framhaldsskólastigi, auk þess sem hún hefur sinnt kennslu í framhaldsfræðslu. Hún hefur starfað við Verkmenntaskóla Austurlands undanfarin sex ár sem framhaldsskólakennari og verkefnastjóri.