Tvísýnt er um það hvort Finnbogastaðaskóli í Árneshreppi verður starfræktur næsta skólaár. Skólinn er eini grunnskólinn í hreppnum en einungis einn nemandi er eftir í skólanum.
„Það er ekki alveg útséð með það hvort skólanum verði lokað. Við ætlum aðeins að skoða málið og spá í það hvaða leiðir eru færar,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, í samtali við Morgunblaðið.
Spurð út í þær leiðir sem standa nemandanum til boða verði skólanum lokað segir Eva of snemmt að segja til um það, en langt er í næsta skóla. Skólinn var rekinn eftir áramót með tveimur nemendum en í Morgunblaðinu í dag segir Eva stöðuna aðra þegar einungis einn nemandi er eftir.