Hátíðir um verslunarmannahelgina

Mikið verður um að vera um land allt um verslunarmannahelgina.
Mikið verður um að vera um land allt um verslunarmannahelgina. Kort/mbl.is

Nú styttist í að verslunarmannahelgin gangi í garð með tilheyrandi hátíðarhöldum um allt land. Mbl.is tók saman helstu hátíðir sem verða haldnar um og yfir helgina.

Þjóðhátíð í Eyjum

Þjóðhátíð í Eyjum verður haldin að venju og verður mikið um að vera í Herjólfsdal líkt og vanalega. Meðal þeirra fjölmörgu tónlistarmanna sem munu koma fram eru Páll Óskar, JóiPé og Króli, Írafar og Jóhanna Guðrún. Brennan, flugeldarnir og brekkusöngurinn verða á sínum stað. Búist er við sól og blíðu í Vestmannaeyjum um helgina.

Frá þjóðhátíð.
Frá þjóðhátíð. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Innipúkinn 

Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður haldin í Reykjavík og verður boðið upp á fjölbreytta tónlistardagskrá á stöðunum Húrra og Gauknum. Einnig verður boðið upp á götuhátíð meðan á hátíðinni stendur fyrir framan tónleikastaði. Aron Can, Mugison, Svala og fleiri góðir munu troða upp.

Akureyri

Tvær hátíðir verða á Akureyri um helgina. Íslensku sumarleikarnir munu fara þar fram og þá verður hátíðin Ein með öllu á sínum stað. Þétt dagskrá verður alla helgina sem hentar öllum aldurshópum. Fjölmargir tónlistar- og menningarviðburðir verða haldnir og þá verður keppt í ýmsum íþróttargreinum, t.d. Kirkjutröppuhlaupinu.

Mýrarbolti

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta verður haldið í 15. sinn um helgina og fer það fram í Bolungarvík. Skráning liða fer fram á vefsíðu Mýrarboltans en einstaklingar án liðs geta einnig mætt og skráð sig í svokallað „skraplið“ og lið sem vantar liðsfélaga. Daði Freyr heldur uppi stuðinu á dansleik á laugardagskvöldið og JóiPé og Króli mæta á lokahóf Mýrarboltans á sunnudagskvöld.

Mýrarboltinn fer fram í Bolungarvík.
Mýrarboltinn fer fram í Bolungarvík. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Neistaflug

Neistaflug verður í Neskaupstað frá miðvikudegi til sunnudags og dagskráin þar verður þétt og fjölskylduvæn. Margt verður um að vera til dæmis golfmót, kassabílarallý, og barsvar. Einar Ágúst, Dúndurfréttir, Stjórnin og Stuðmenn munu koma fram meðal annarra og þá lætur Íþróttaálfurinn sjá sig ásamt fleirum góðum gestum.

Flúðir um versló

Hátíðin Flúðir um versló verður haldin á Flúðum um helgina. Dagskráin hefst á fimmtudag með tónleikum KK-bandsins. Yfir helgina verður mikil dagskrá. Meðal viðburða er uppistand Sóla Hólm, traktortorfæra, leikhópurinn Lotta kemur fram og þá fer fram furðubátakeppni. Meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Páll Óskar, 200.000 naglbítar, Stuðlabandið og Stefán Hilmarsson. Á sunnudagskvöld verður brenna og brekkusöngur.

Sæludagar í Vatnaskógi

KFUM og KFUK á Íslandi standa  fyrir Sæludögum, vímulausri fjölskylduhátíð, í Vatnaskógi um verslunarmannahelgina. Hægt verður að fá lánaða báta og fara út á vatn, taka þátt í knattspyrnumóti og þá fer söng- og hæfileikasýning fram svo eitthvað sé nefnt. Morgunverðarhlaðborð verður frá föstudegi til mánudags.

Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem hefur verið haldin frá árinu 1992. Mótið í ár fer fram í Þorlákshöfn. Keppt verður í gríðarlegum fjölda íþróttagreina svo sem bogfimi, frisbígolfi, frjálsíþróttum, glímu og knattspyrnu. DJ Dóra Júlía, Flóni, Emmsjé Gauti og fleiri koma fram í Þorlákshöfn um helgina.

Frá setningu unglingalandsmóts UMFÍ sumarið 2016.
Frá setningu unglingalandsmóts UMFÍ sumarið 2016. mbl.is/Theódór Kristinn Þórðarson

Kotmót

Kotmót Hvítasunnukirkjunnar er haldið í Kirkjulækjarkoti um helgina. Ásamt hinni hefðbundnu dagskrá verður unglingadagskrá sem og barnamót fyrir yngstu börnin. Ræðumaður mótsins í ár er Andreas Nielsen.

Norðanpaunk

Norðanpaunk er þriggja daga tónlistarhátíð sem verður haldin á Laugarbakka, smábæ í um það bil tveggja tíma fjarlægð norður af Reykjavík. Rúmlega 40 tónlistarmenn og hljómsveitir munu koma þar fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert