Eitt kynferðisbrot einu broti of mikið

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir mikilvægt að kærleikurinn sé …
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir mikilvægt að kærleikurinn sé ríkjandi á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur

Lögregluyfirvöld í umdæmum helstu áfangastaða Íslendinga um verslunarmannahelgina munu kappkosta að auka viðbúnað vegna kynferðisbrotamála sem og annarra málaflokka þessa helgina. Þá verður víða enn fremur aukið við forvarnir og gæslu til þess að sporna við því að slík mál komi upp. Þetta segja varðstjórar og yfirlögreglustjórar umdæmanna.

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Vestmannaeyjum, segir að eftirlit í Herjólfsdal verði með svipuðu sniði á þjóðhátíð um helgina og verið hefur síðustu ár. Þó sé ávallt miðað að því að gera betur ár hvert og því verði öryggismyndavélum fjölgað á svæðinu í ár. „Við reynum alltaf að gera betur heldur en árið áður og bæta í,“ segir Jóhannes. Á svæðinu verða 28 lögreglumenn og annað gæslufólk á svæðinu verður um 200 talsins.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að vinnulag lögreglunnar í Vestmannaeyjum við miðlun upplýsinga verði eins og síðustu þrjú ár þar sem allar upplýsingar um verkefni lögreglu verði veittar um leið og búið er að tryggja rannsóknarhagsmuni og velferð mögulegra brotaþola, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.

Kærleikurinn verði að vera til staðar

Undanfarin ár hefur þjóðhátíðarnefnd í samstarfi við lögregluna í Vestmannaeyjum unnið að átaki gegn kynferðisofbeldi sem er kallað „Bleiki fíllinn“. Með átakinu er reynt að vekja athygli á málaflokknum í því skyni að uppræta kynferðisbrot á hátíðinni. Jóhannes segir umræðuna mikilvæga í þessum efnum. „Umræðan er mikilvæg í baráttunni við kynferðisbrot, það má aldrei slá slöku við. En fyrst og fremst þarf þetta að vera fólkið sjálft, kærleikurinn verður að vera til staðar því eitt svona mál er einu máli of mikið ef það kemur upp.“ 

Á annað hundrað gæslufólks mun standa vaktina á þjóðhátíð í …
Á annað hundrað gæslufólks mun standa vaktina á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina. mbl.is/Ófeigur

Jóhannes segir þó alltaf vera markmiðið að engin slík mál komi upp. „Það er alltaf markmiðið og allir eru með samtakamátt og ósk um að svo verði.“

Hann segir jafnframt að lögreglan vinni í nánu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, sálgæsluaðila og þjóðhátíðarnefnd að viðbrögðum við kynferðisafbrotum og m.a. sé boðið upp á áfallahjálp. „Við reynum að vanda okkur í þessu eins og við mögulega getum,“ segir Jóhannes.

Viðbragðsferlar skýrir fyrir helgina

Á Akureyri og Ísafirði er jafnframt unnið náið með heilbrigðisyfirvöldum og verkferlar skýrir í tengslum við mál sem þessi. Lögreglumenn segja alla viðbragðsaðila reiðubúna til þess að bregðast við þeim málum sem kunna að koma upp um helgina. Á Akureyri vinnur lögregla jafnframt náið með Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, að því að allt fari sem best fram.  

Á Ísafirði, þar sem mýrarboltinn mun fara fram um helgina, er rannsóknardeild á bakvakt og fylgst með málaflokknum í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Hlynur Hafberg Snorrason varðstjóri segir lögreglumenn á Ísafirði meðvitaða um hættu á brotunum og því séu verkferlar skýrir hvað varðar viðbrögð við brotum. „Það þurfa allir að vera á varðbergi,“ segir Hlynur.

Dyrnar standa opnar um og eftir verslunarmannahelgi

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að samtökin verði ekki með viðveru á neinum hátíðum þessa helgina frekar en fyrri ár en móttakan standi opin þolendum kynferðisofbeldis.

Á síðasta ári leituðu um 20 manns til samtakanna dagana eftir verslunarmannahelgi. „Við höfum ekki verið með vaktir á útihátíðum. Við hins vegar tökum á móti fólki eftir verslunarmannahelgina og vonum að það sé viðbúnaður á öllum stöðum, áfallahjálp og öryggi sé sem mest. Við tökum við öllu því fólki sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi,“ segir Guðrún. 

Þá er neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis opin allan sólarhringinn á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert